152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[15:31]
Horfa

Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Það er fagnaðarefni að umhverfis- og loftslagsmál séu forgangsatriði í stjórnarsáttmálanum og að við flest hér inni séum sammála um að um sé að ræða stærsta vandamál samtímans. Við hér inni erum flest sammála um að fylgja vísindunum þegar kemur að því að lýsa vandamálinu og skoða það, en þegar kemur að því að leysa vandamálið og fjármagna þá er eins og vísindi og réttar tölur skipti bara allt í einu engu máli. Ákvörðun stjórnvalda um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda væri fagnaðarefni ef þar væri verið að taka inn í myndina heildarlosun Íslands. Þessi 55% miðast aðeins við losun á beinni ábyrgð stjórnvalda sem er ekki nema fimmtungur losunar Íslands.

Virðulegi forseti. Þetta finnst mér skrýtið að ríkisstjórnin kynni ekki fyrir fólki þegar þau tilkynna að við ætlum að vera alheimsleiðtogi hvað varðar loftslagsmál. Ef miðað er við heildarlosun þá er ljóst að við náum ekki því markmiði, sérstaklega í ljósi þess að í þessu frumvarpi er aðeins gert ráð fyrir 1 milljarðs kr. aukningu í samanburði við 12 milljarða kr. í fyrra. Til að standa við loforðin þarf að halda áfram að fylgja vísindunum og fjármagna verkefnin.

Ein leið til að fjármagna þessar aðgerðir er að hækka kolefnisskattinn, en ekki er gert ráð fyrir nægum hækkunum í núverandi fjárlagafrumvarpi. Stuðla þarf að grænum sköttum eins og urðunarskattinum sem var hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda á síðasta kjörtímabili en það mál var fellt niður án haldbærra röksemda. Það er ekkert sem stendur í vegi fyrir því að ríkisstjórnin geti tekið það upp núna og ég vil endilega hvetja nefndina til þess að taka það mál upp aftur.

Sumir spyrja: Af hverju skattar en ekki hvatning? Jú, því að það að menga kostar samfélagið gríðarlega mikið í formi umhverfishættu, skertrar heilsu og mannslífa, allt mjög kostnaðarsamt fyrir heilbrigðiskerfið og efnahaginn. Þeir sem menga ættu því að þurfa að taka þátt í þeim kostnaði. Fleiri en 3.500 helstu hagfræðingar Bandaríkjanna, þar af 28 nóbelsverðlaunahafar, frá öllum hliðum stjórnmálanna, hafa skrifað undir ályktun og í 1. gr. hennar stendur að kolefnismengunarskattur sé áhrifaríkasta leiðin til að minnka losun. Þetta er ekki til þess að stækka umfang eða inngrip ríkisins, það er sagt alveg skýrt þar, heldur til að rétta af þennan stóra markaðsbrest sem loftslagsbreytingar valda. Álit hagfræðinganna segir einnig að þetta muni senda sterk skilaboð til markaðarins og þar af leiðandi vinna með markaðsöflunum til þess að ná fram grænni nýsköpun í átt að kolefnishlutlausri framtíð.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 2,5% hækkun á kolefnisgjaldi en vísitala neysluverðs hefur hækkað um 4% og eldsneytisverð fylgir þeirri hækkun. Þess vegna er þetta í raun lækkun á kolefnisgjaldinu. Þetta finnst mér, virðulegur forseti, enn og aftur skrýtið í ljósi þess hve vandinn er stór. Það þarf að sækja fram núna. Það þarf að halda áfram að fylgja vísindum og tölum þegar kemur að því að leysa vandamálið. Ég vil leggja til að efnahags- og viðskiptanefnd breyti þessu og kolefnisgjaldið verði hækkað talsvert meira en sem nemur hækkun vísitölu neysluverðs og í samræmi við það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir til um.

Eins og hv. þm. Birgir Þórarinsson nefnir þá er mikilvægt að horfa til jafnræðis við þessa gjaldtöku og vil ég þakka fyrir innlegg hans og ég fagna því að þingmenn séu farnir að íhuga loftslagsjafnrétti. En þetta er einmitt tilgangur kolefnisskatts, hann á að leggjast hæst þá sem menga mest, sem eru langoftast þeir í tekjuhærri hópum, og renna í annaðhvort útgreiðslur eða loftslagsaðgerðir. Þar getum við horft til nágranna okkar á Norðurlöndunum, t.d. Noregs, sem er með NOx-sjóðinn og fjármagnar loftslagsaðgerðir í gegnum kolefnisskatt. Það að fólk á landsbyggðinni þurfi að keyra meira og borga meiri skatt er alveg vert að nefna og ég þakka það en það ætti einmitt að hvetja til meiri fjárfestinga í umhverfisvænum samgöngumátum og almenningssamgöngum með kolefnisskatti sem má vel bæta á landsbyggðinni. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að það þurfi að hækka kolefnisgjaldið á Íslandi tvöfalt eða þrefalt og skýra mjög hvert það fer til þess að það nái sínu marki. Það er mjög skiljanlegt að þingmenn séu að gagnrýna það núna en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er búinn að segja að til þess að skatturinn nái markmiði sínu þurfi að hækka hann og skýra vel hvert hann á að fara, tryggja gagnsæi og jafnræði.

Í heild er ljóst að auka þarf grænar fjárfestingar og vísindalegt mat milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna er að leggja eigi 4% af landsframleiðslu í loftslagsaðgerðir og græna uppbyggingu. En ef áætluð útgjöld til loftslagsmála árið 2020 eru borin saman við verga landsframleiðslu Íslands 2019 samsvara þau aðeins um 0,4%. Við erum þá tífalt eftir á. Evrópusambandið í sínum græna pakka er að fjárfesta 2%, sem mér finnst vera algjört lágmark fyrir Ísland ef við ætlum okkur virkilega að vera leiðtogi á alheimsvísu í loftslagsmálum og standa við það.

Enn og aftur stangast tölurnar á við þessi merku loforð. Þetta er rosalega skrýtin staða, ef ég má segja það, að fyrir ári hafi verið kallað úti á Austurvelli eftir loftslagsverkföllum og alvöruloftslagsaðgerðum, fá yfirlýsingar um róttækar aðgerðir frá ríkisstjórninni en sjá svo þetta fjárlagafrumvarp. Var þetta bara kosningaloforð eða einhver skemmtileg sýndarmennska eða grænþvottur? Til að ná þessum göfugu markmiðum þarf að fylgja þeim eftir í fjárlögum og vona ég að hér inni sé samstaða um að hækka kolefnisskattinn, sem er sú lausn sem vísindamenn á báðum hliðum stjórnmálanna geta sætt sig við og hefur sýnt sig að virki á Norðurlöndum.

Þetta er afskaplega áhugaverður tími sem mín kynslóð hefur fengið að alast upp á, tvær krísur á sama tíma en að mínu mati erum við búin að læra þá lexíu af krísunum hvað er best að gera. Það verður að horfa aðeins lengra fram í tímann en bara til loka næstu Covid-bylgju, til loka næsta ársfjórðungs eða til loka næsta kjörtímabils. Það að bjóða upp á stöðugleika í íslenskum stjórnmálum og í fjárlagafrumvarpi þýðir ekki lengur að finna lægsta samnefnara og fara hægt í málin. Nei, þá missum við af vextinum og tækifærunum sem bíða eftir okkur. Ef við bara þorum aðeins að horfa fram á við. Fram undan eru því miður margar krísur, vistfræðilegt niðurbrot, heimsfaraldrar, fjölgun umhverfisflóttafólks og efnahagslegur ójöfnuður sem við þurfum að byrja að takast á við strax. Þess vegna þurfum við að snúa vörn í sókn í loftslagsmálum og það byrjar á því að tryggja fjármögnun aðgerða.