152. löggjafarþing — 18. fundur,  28. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[11:34]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Það mætti halda á þessum atkvæðaskýringum hérna að það væri ekkert verið að gera fyrir öryrkja. Það er ekki rétt. Það var verið að hækka bætur þeirra aukalega um 1% og það skiptir máli. Í atkvæðagreiðslu sem við erum að fara í hérna á eftir er verið að draga úr innbyrðisskerðingum. Það eru aðgerðir sem munu gagnast öllum. Við skulum ekki minnast á jólabónusinn sem við greiddum atkvæði um fyrir jól og er andlag í frumvarpinu á eftir. Það eru breytingar sem gagnast mjög mörgum í þessu kerfi. Sú breyting sem hér er lögð til mun einungis gagnast þeim sem nú þegar eru best settir í kerfinu. Ég er sammála því að það þurfi að taka á kerfinu og endurskoða það þannig að það sé hvati til atvinnuþátttöku en það þarf að gerast með heildstæðum hætti (Forseti hringir.) þannig að breytingar á einum stað bíti ekki í sig á öðrum og ég hef fulla trú á því að í þá vinnu verði farið strax á næsta ári.