152. löggjafarþing — 19. fundur,  28. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[14:59]
Horfa

Thomas Möller (V):

Forseti. Þetta er minn fimmti dagur hér á Alþingi. Í fyrstu ræðu minni færði ég þingmönnum hvatningu til að bera meiri virðingu fyrir skattgreiðendum þessa lands. Ég vil þakka hversu vel er tekið á móti nýjum þingmönnum hérna og ég vil líka þakka fyrir nefndastörfin sem ég hef tekið þátt í. Þar er að mínu mati sýnd fagmennska og mér líður eins og ég sé á fundi í fyrirtæki úti í bæ þar sem er unnið með mjög faglegum vinnubrögðum. Ég vil líka geta þess að á þessum dögum hef ég orðið vitni að því að það hafa verið samþykktir fjármunir í mörg mjög góð mál á sviði heilbrigðismála, menntamála, umhverfismála og málefna sem bæta lífskjör þeirra sem virkilega þurfa aðstoð frá ríkinu. En það eru mikil vonbrigði að sjá að útgjöld, stór útgjöld, eru samþykkt hér án mikillar umhugsunar eða undirbúnings.

Ég vil nefna þrjú dæmi. Það er búið að samþykkja hér rúma 7 milljarða í verkefni sem heitir þessu fallega nafni Allir vinna. En eru allir að vinna? Þetta er verkefni sem er búið að mæla gegn í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Seðlabanki Íslands mælir gegn því. Þetta leiðir til óstöðugleika í efnahagslífinu. Samt er þetta samþykkt hér. Ég vil benda á að svona lausleg áætlun mín sýnir að þetta eru skattar 1.000 heimila, það eru sirka 1.000 heimili í landinu sem borga alla skatta sína á næsta ári í þetta verkefni.

Annað mál er 500 milljónir í streymisveitu ríkisins. Ég eiginlega skil ekki hvernig var hægt að koma þessari hugmynd hingað inn í þingið. Þetta er algerlega án rökstuðnings. Ég hef hvergi fundið neina greinargerð sem fylgir þessum 500 milljónum. Þetta eru skattar 70 fjölskyldna sem fara bara í þetta eina streymisveitugæluverkefni.

Síðan í þriðja lagi: 300 milljónir eiga að fara í að fjölga ráðuneytum. Engin greining, engin rök, engar útskýringar. Stundum finnst mér þurfa að minna hæstv. ráðherra á að við erum yfirmenn þeirra.

Ég vil í lokin ítreka hvatningu mína um að við hv. þingmenn sýnum skattgreiðendum þessa lands meiri virðingu og þjálfum okkur jafnvel í að segja stundum nei við nýjum útgjöldum.