152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

heimilisuppbót almannatrygginga.

[15:21]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í þessum óundirbúna fyrirspurnatíma vil ég ræða við hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra um heimilisuppbót. Ég er kominn hingað til að ræða um útlaga nútímans. Hvernig stendur á því að heimilisuppbótin fellur niður þegar lífeyrisþegi flytur úr landi? Það er engin trygging fyrir því að fólk öðlist sams konar réttindi frá öðru ríki þegar lífeyrisþegi flytur milli landa jafnvel þó að hann eigi áfram rétt á örorkubótum. Fólk er kannski að flýja land til þess eins að ná endum saman, enda er húsnæðisverð í hæstu hæðum, og verður fólk þá fyrir verulegum tekjuskerðingum. Hvers vegna er verið að gera fólki slíkan grikk? Er þetta ekki mismunun á grundvelli búsetu? Íbúðaverð er í hæstu hæðum, leiguverð er í hæstu hæðum. Stór hópur fólks á ekki séns, hvorki á að eignast íbúð né leigja lengur. Þess vegna spyr ég: Hvernig stendur á því að heimilisuppbótin fellur niður þegar lífeyrisþegi flytur af landi brott án tillits til þess hvort hann öðlist rétt á sambærilegum stuðningi í nýju landi?

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að þeir sem eru með 200.000 kr. plús í félagsbótakerfinu þurfa að borga 200.000 kr. plús í leigu eða til að halda húsnæði sínu. Það er ekkert eftir, ekkert eftir fyrir mat, ekkert eftir fyrir öðrum nauðsynjum. Það er verið að pína fólk sem stendur frammi fyrir því og það fólk spyr mann: Hvað á ég að gera? Á ég að fara á götuna eða þarf ég að flytja úr landi? Fólk fór í útlegð, brotamenn, en þetta er veikt fólk sem hefur ekkert brotið af sér. Það spyr: Ef ég flyt úr landi, hvers vegna í ósköpunum verð ég fyrir skerðingum?