152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

heimilisuppbót almannatrygginga.

[15:23]
Horfa

félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Þingmaðurinn ræðir hér heimilisuppbót sem fellur niður þegar einstaklingur flytur til útlanda. Ég ætla að fá að nálgast þetta þannig að ég held að það sé rétt að við þurfum að skoða þetta sérstaklega. Það eru dómsmál í gangi sem fjalla um málefni sem snúa akkúrat að þessu, ég veit ekki nákvæmlega hvort hv. þingmaður er að vísa til þess eða hvað, þannig að ég ætla að fá að eiga betra samtal um það við þingmanninn síðar.

Það sem mig langar að koma inn hérna á tengist þessu kannski að vissu leyti þó svo að óskylt mál sé, og það eru húsnæðisbætur. Það fólk sem á erfiðast með að ná endum saman í samfélagi okkar er fólk sem greiðir mjög háa húsaleigu, fólk sem er á leigumarkaði. Þar held ég að við þurfum að skoða húsnæðisbæturnar sérstaklega, en ekki síður að efla hið almenna íbúðakerfi þannig að við getum búið til fleiri tækifæri fyrir fólk, sem minna hefur á milli handanna, til að lækka húsaleigu. Það er mjög ánægjulegt að sjá þá þróun sem orðið hefur á síðustu árum í rétta átt hvað þetta varðar, og ég veit að hv. þingmaður þekkir vel, sérstaklega þar sem bætt hefur verið inn í hið almenna íbúðalánakerfi. Þar hefur leiga lækkað um tugi þúsunda og ég held að við þurfum að halda áfram á þeirri braut.