152. löggjafarþing — 20. fundur,  17. jan. 2022.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

210. mál
[16:17]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Mig langar að koma inn á nokkur atriði sem koma fram í frumvarpinu. Það er strax í 1. gr. fjallað um það hverjir falla ekki undir þá regnhlíf að geta nýtt sér þessa lausn og hér segir, með leyfi forseta:

„Ef arði er úthlutað eða eigin hlutir keyptir á árinu 2022 eða“ — og það er það sem ég vil spyrja um — „úttekt eigenda innan ársins 2022 fer umfram reiknað endurgjald þeirra verður ekki fallist á frestun greiðslna í skilningi þessa ákvæðis.“

Er þá verið að vísa til þess að þeir sem reikna sér endurgjald megi ekki fara umfram það endurgjald sem er tilgreint á heimasíðu Skattsins? Bara sem dæmi eru ný fyrirtæki, af því að nú er hæstv. ráðherra fyrrverandi nýsköpunarráðherra, undir flokki B9, sem eru yngri en 12 ára, með einn til tvo starfsmenn, þar er viðmiðið 498.000 kr. Það hætta allir í rekstri ef þetta er viðmiðið, að það megi ekki borga sér meira en 498.000 á mánuði.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig vaxtareikningi verði háttað hvað þessar frestanir varðar. Verða þær vaxtareiknaðar eða vaxtalausar?

Síðan langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra: Eru fyrirtæki sem er með frestun vegna annarra lausna sem boðnar hafa verið á fyrri stigum álitin í vanskilum? Þetta er það sem ég vildi spyrja um í fyrri spurningum mínum.