152. löggjafarþing — 21. fundur,  17. jan. 2022.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

210. mál
[23:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að þakka þeim þingmönnum sem hér hafa komið og tekið þátt í þessari umræðu. Hún er mikilvæg og hún skiptir máli og það er rétt sem hér hefur komið fram að við verðum að taka umræðuna. Rétt eins og hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson nefndi hér áðan þá þurfum við auðvitað að horfa fram á veg og við þurfum að horfa til framtíðar og líta til þess hvernig við ætlum að komast út úr þessu. Það eru ýmis teikn á lofti núna að við sjáum vonandi fyrir endann á þessu, að við getum hægt og rólega fært okkar líf til fyrra horfs. Ég el þá von í brjósti að svo sé. En það er gríðarlega mikilvægt að við sem hér sitjum, sem með ákvörðunum okkar höfum gríðarleg áhrif á fólk og fjölskyldur og fyrirtæki í þessu landi, gerum allt sem í okkar valdi stendur til að hjálpa þessum aðilum til þess að lifa af þær aðgerðir sem við höfum gripið til í samfélaginu. Vitaskuld er ekki nóg að fresta eingöngu gjalddögum opinberra gjalda og við munum ekki sjá út úr þessu nema ganga samhent til þess verks. Að því sögðu, þegar ég tala um samheldni, þá vil ég þakka félögum mínum í efnahags- og viðskiptanefnd fyrir gott samstarf og fyrir að hafa lagt mikið á sig í dag og ég vil líka þakka þingheimi fyrir. Við sitjum hér enn, það er langt liðið á kvöld, og með því er hvert og eitt okkar að leggja okkar lóð á vogarskálar að rétta við efnahaginn í þessu landi og rétta fyrirtækjunum okkar hjálparhönd. Ég ítreka aftur þakkir mínar til nefndarmanna og þingheims.