152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

staðan í heilbrigðiskerfinu.

[14:44]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Við horfum þessa dagana fram á verulegan vanda innan heilbrigðiskerfisins vegna faraldursins sem við höfum verið að glíma við í tvö ár. Þetta hefur reynt mjög á alla innviði en um leið afhjúpað þá veikleika sem er að finna í kerfinu. Hins vegar fyllist maður aðdáun á því fólki sem hefur lagt nótt við dag við hættulegar aðstæður til að koma í veg fyrir skelfilegar afleiðingar faraldursins. Það er því ódýrt við þessar aðstæður að tala um illa rekið heilbrigðiskerfi en að sjálfsögðu eigum við að nýta okkur það sem þessi faraldur hefur kennt okkur og læra af því. Landspítalinn glímir við þríþættan vanda, þ.e. mönnunarvanda, flæðisvanda og fjárhagsvanda. Nú vantar u.þ.b. 250 hjúkrunarfræðinga, um 100 sjúkraliða og milli 10 og 20 lækna. Kemur þar margt til, svo sem bágar starfsaðstæður, óviðunandi launakjör sem leitt hafa af sér mikla starfsmannaveltu, flæðisvandi vegna þess að við höfum ekki staðið okkur í að byggja hjúkrunarheimili fyrir eldra fólkið okkar, og síðan fjárhagsvandi sem birtist m.a. í því að í fjárlögum næsta árs vantar u.þ.b. 1,6 milljarða til að spítalinn fái sinnt þeim verkefnum sem honum er ætlað.

Þessi faraldur hefur einnig haft mikil áhrif á heilsugæsluna og hana þarf að bæta sem fyrsta viðkomustað um allt land. Þar þarf að auka fjölbreytni og heimila sjálfstæðum rekstraraðilum aðkomu.

Virðulegur forseti. Það er og verður okkar stærsta og mikilvægasta verkefni að bæta heilbrigðiskerfið okkar til góðs fyrir íslenskt samfélag.