152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

staðan í heilbrigðiskerfinu.

[14:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að koma að þriðja áherslulið hv. þingmanns og málshefjanda um að tryggja aðgengi að heilbrigðisþjónustu um allt land. Það skal viðurkennt hér að aðgengi að sérgreinaþjónustu þarf að bæta. Ég vil draga fram að í þróun eru verkefni sem snúa að fjármögnun samninga á milli heilbrigðisstofnana um allt land, sérgreinaþjónustusjúkrahúsanna á Akureyri og Landspítala – háskólasjúkrahúss. Það er að skila árangri. Að styrkja heilbrigðisþjónustuna og jafna aðgengi mun kalla á fjölbreyttar lausnir og samvinnu milli stofnana og sérgreinasjúkrahúsa, tæknilausnir, fjarheilbrigðisþjónustu, samgöngur o.fl. Við þurfum ávallt að vinna í að bæta þetta.

Varðandi mönnunarþáttinn sem er stóra áskorunin og kom fram í máli allra hv. þingmanna sem hér töluðu vil ég segja að sjúkrahúsin tvö, á Akureyri og ekki síður Landspítali, eru afar mikilvæg fyrir menntunina. Þar fer fram algjört kjarnastarf og frábært starf á Landspítala. Það eru aðstæðurnar og það eru kjörin ef við ætluðum að ná að vera samkeppnishæf um starfsfólk og að manna kerfið til framtíðar.

Ég vil þakka þessa umræðu. Hún verður ekki tæmd hér en við þurfum oftar en bara í tengslum við fjárlög að taka þessa umræðu. Svo vil ég taka undir með hv. þingmönnum um að við eigum frábært starfsfólk, heilbrigðiskerfi sem hefur staðist gríðarlegt álagspróf og við stöndum með okkar heilbrigðiskerfi og okkar spítala í gegnum þetta og við þurfum að huga að mönnun til framtíðar.