152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

168. mál
[15:24]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir kynninguna á frumvarpinu og þakka henni fyrir að leggja það fram. Það er mikilvægt öllum stundum að berjast gegn hvers kyns mismunun. Það er magnað, í jafn upplýstu samfélagi og við lifum í, bæði hér og víða í nágrannalöndum okkar, að það virðist sem ákveðið bakslag sé að verða í jafnréttismálum, hvort sem um er að ræða jafnrétti vegna kyns, kynhneigðar, þjóðernisuppruna eða jafnvel vegna heilsufars. Örlað hefur á meiri hörku gegn minnihlutahópum, ofsóknir víða um heim og í nágrannalöndum okkar. Við höfum líka heyrt það hér í þingsal að efast er um réttmæti þess að berjast gegn hvers kyns mismunun. Það er verið að efast um réttmæti þess á grundvelli tjáningarfrelsis, eins og það sé á einhvern hátt samtvinnað að mega mismuna fólki, að mega ráðast að minnihlutahópum og fá að njóta tjáningarfrelsis. Það er ekki á neinn hátt verið að segja að fólk megi ekki tjá skoðanir sínar þegar verið er að vernda ákveðna minnihlutahópa gegn mismunun, þvert á móti. En einhvern veginn hefur í umræðunni örlað á þessu, jafnvel hjá hv. þingmanni sem flutti hér ræðu á undan mér.

Hvers vegna er svona mikilvægt að taka þetta til? Jú, af því að það skiptir máli að löggjafinn og stjórnvöld sendi mjög skýr og eindregin skilaboð öllum stundum og á öllum tímum um að mismunun sé ekki í boði, að það séu bara skýr skilaboð. Við tökum ekki þátt í því.

Þá langar mig aðeins, varðandi lagatæknilega útfærslu, að velta fyrir mér hvort — þetta eru bara vangaveltur — við erum mögulega á villigötum þegar við aukum alltaf við upptalninguna á þáttum sem ekki má brjóta gegn, hvort við lendum þá í því að við þrengjum þetta alltaf þannig að við séum í rauninni farin að útiloka ákveðna hópa sem ekki komast inn í upptalninguna, eru ekki taldir upp. Ég held að það sé eitthvað sem við þurfum alltaf að hugsa um við lagasetningu, að reyna eins og við getum að hafa lög nógu almenn til að grípa alla mögulega hópa sem málið á að varða.

Ég held að ég geti fullyrt, af því að hér er t.d. talað um fötlun, að víða eru undirliggjandi í íslensku samfélagi fordómar og mismunun gagnvart þeim sem glíma við geðrænar áskoranir. Þetta er það undirliggjandi að við áttum okkur ekki á því, þessi þjóðfélagshópur mætir einhverra hluta vegna afgangi þegar kemur að ýmsum þáttum sem verið er að bæta. Nærtækasta dæmið er t.d. bara húsnæðisbygging, bygging nýs meðferðarkjarna Landspítala við Hringbraut, þar sem löngu úr sér gengið húsnæði fyrir þennan sjúklingahóp er bara látið standa, hundrað ára gamalt húsnæði við Klepp og áratugagamalt og algerlega ófullnægjandi húsnæði við Hringbraut. Þessi sjúklingahópur á ekki að fá að komast inn í nýjan meðferðarkjarna. Þetta er ekki sagt af mannvonsku og ég ætla ekki að mannvonska búi þarna að baki eða að þetta sé meðvituð ákvörðun. Ég velti fyrir mér hvort við ættum kannski að hugleiða þetta alltaf, hvort það geti verið að þetta sé svona rótgróið, að við hugsum svona lítið um þetta.

Frumvarpið er mjög gott. Það tekur á mjög mörgu sem við erum að glíma við og það verður gaman að fylgjast með starfinu sem mun eiga sér stað í allsherjar- og menntamálanefnd. En ég vona að við munum tala meira um það hér í þingsal, þennan misskilning þegar kemur að því að halda að þetta snúist um tjáningarfrelsi fólks og skoðanir fólks á annarra manna skoðunum. Það er ekkert verið að fjalla um það. Það er verið að fjalla um það að vega að öðru fólki og mismuna því á einhvern hátt. Það er ekki skoðun fólks að vera með fötlun, vera á ákveðnum aldri, hafa ákveðna kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni — þetta er ekki skoðun. Auðvitað eigum við að fagna allri umræðu, en hér erum við að tala um mismunun og að fjölga þeim mismununarþáttum sem taka á í þau lög sem eru í gildi nú þegar.

Ég bara ítreka að ég fagna frumvarpinu og vona að nefndinni gangi vel við vinnslu þess.