152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

hjúskaparlög.

163. mál
[16:10]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og biðst afsökunar á að hafa kannski ekki verið alveg nógu skýr í upphafi erindis míns. Ég er hér að tala um dæmi þar sem viðkomandi einstaklingur var yngri en 16 ára þegar til hjónabandsins var stofnað. Sannarlega er það svo að því yngri sem viðkomandi var, því alvarlegra er brotið, við skulum bara kalla það það, en kannski er neyð viðkomandi þeim mun alvarlegri. Þannig að ég ætla að endurtaka spurninguna en útfæra hana þannig: Telur hæstv. ráðherra það ekki vandamál sem þarf að leysa, sú staða sem einstaklingar, sem giftust áður en þeir urðu 16 ára, yrðu í við þær aðstæður sem ég nefndi hér áðan? Og hvað telur ráðherra rétt að gera til þess að leysa þann vanda?