152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

loftferðir.

186. mál
[17:50]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, mig grunar að starfsfólk ráðuneytisins eigi eftir að dvelja löngum stundum hjá umhverfis- og samgöngunefnd og fara yfir álitamál í þessu máli til að við getum náð almennilega utan um þau. Ég þakka auðsýndan vilja ráðherrans til að leggja sitt af mörkum þar. Mig langar að beina sjónum að XII. kafla frumvarpsins í mínu síðara andsvari en hann varðar m.a. skipulag flugvallarsvæða. Sá kafli var harðlega gagnrýndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem tekið er undir það að mikilvægt sé að draga úr hættu á ágreiningi milli sveitarfélaga sem fara með skipulagsvald í landinu og þeirra aðila sem reka flugvelli og lagt til að úr því verði leyst með því að kveða skýrt á um að sveitarstjórn beri að eiga beint samráð við rekstraraðila flugvalla frekar en að taka beinlínis skipulagsvaldið af sveitarfélögunum, ekki bara í tengslum við flugvelli heldur líka í tengslum við fyrirhuguð flugvallarsvæði. Þetta segir sambandið vera afar misráðið fyrirkomulag og lagði á það áherslu að tillit yrði tekið til þeirra sjónarmiða áður en frumvarpið yrði að lögum. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, sem fer reyndar líka með málefni sveitarfélaga, hvers vegna ekki hafi verið tekið tillit til þessara atriða við endurframlagningu málsins.