152. löggjafarþing — 23. fundur,  18. jan. 2022.

hjúskaparlög.

172. mál
[19:36]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að taka fram að ég er sammála markmiði þessa frumvarps. Mig langar þó aðeins til að velta upp tveimur hlutum. Nú tekur flutningsmaður fram að tvö mál séu fléttuð saman og ég hef verið að skoða innkomnar umsagnir um hjúskaparmálið sem hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson flutti. Hér er umsögn frá sýslumanninum í Kópavogi þar sem segir — eins og við vitum er hjónaband, ef við mínusum kjólinn, blómin, kirkjuna, myndatökuna, löggjörningur milli tveggja manneskja og þegar kemur að því að slíta því þá bendir sýslumaður á að fara þurfi eftir reglum stjórnsýslunnar og andmælarétturinn sé sterkur. Mig langar til að spyrja flutningsmann hvort farið hafi verið í gegnum þessar reglur og hvort þetta lengi ekki þetta ferli.