störf þingsins.
Virðulegi forseti. Opin og gagnrýnin umræða er af hinu góða þegar kemur að umfjöllun um Covid og allt það sem þeirri óværu fylgir. Þegar sumir félagar mínir í Sjálfstæðisflokknum tala um að gagnrýnin umræða eigi erfitt uppdráttar þá er ég þeim algjörlega ósammála. Ég er þeim líka algerlega ósammála þegar þeir segja að ríkisstjórnin hafi brugðist í viðbrögðum sínum við faraldrinum. Þar nægir að nefna að hér hefur gengið vel og það sýnir alþjóðlegur samanburður, hvort sem horft er til fjölda andláta, bólusetningarstöðu eða stöðu efnahagsmála. Íslensk stjórnvöld hafa byggt ákvarðanir sínar undanfarin misseri á bestu mögulegu upplýsingum, rannsóknum og gögnum og tekið ákvarðanir út frá heildarhagsmunum samfélagsins. Reglur um skimanir, sóttkví, einangrun og almennar takmarkanir hafa verið til reglulegrar endurskoðunar út frá mati á stöðunni hverju sinni þannig að ekki sé gengið lengra en þörf krefur og þingmenn eiga alla möguleika á að taka fullan þátt í þeirri umræðu, m.a. við reglulega skýrslugjöf núverandi og fyrrverandi heilbrigðisráðherra, að ég tali nú ekki um ráðherrana sem sitja við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar.
Þegar talað er eins og einungis eitt sjónarmið ráði för um allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar og Alþingis þá hefur raunin verið sú að mikið samráð hefur verið haft við ýmsa aðila með almannahagsmuni að leiðarljósi. Þar hafa ráðleggingar vísindamanna vegið þyngst. Markmiðin hafa verið að vernda líf og heilsu landsmanna og lágmarka samfélagslegan og efnahagslegan skaða af faraldrinum. Þingið hefur fjallað um efnahagslegar og félagslegar aðgerðir og haft heilmikið að segja hvað þær varðar. Það er gott að stjórnmálafólk kalli eftir upplýsingum og spyrji gagnrýninna spurninga en ábyrgir stjórnmálaflokkar hljóta líka að leggja fram lausnir sem fela í sér ábyrga afstöðu gagnvart viðfangsefninu. Slík afstaða hlýtur alltaf að byggjast á bestu mögulegu rannsóknum og gögnum en ekki hugmyndafræðilegri afstöðu eða upphrópunum.