152. löggjafarþing — 24. fundur,  19. jan. 2022.

sala Símans hf. á Mílu ehf.

[15:36]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Hæstv. forseti. Þegar ég fór fram á sérstaka umræðu um sölu Símans á Mílu í upphafi þings var ég að vonast eftir að ná þeirri umræðu áður en salan gengi í gegn. En þessi umræða er engu að síður nauðsynleg og margar spurningar hafa vaknað sem þarf að svara. Það sem stendur upp úr er andvaraleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart fjárfestum og fjármagni því að það blasir strax við að ekki er allt sem sýnist. Fyrstu opinberu gögnin sem til eru um sölu Mílu eru á hluthafafundi Símans þann 31. ágúst 2021. Í kynningu fyrir fundinn stendur m.a., með leyfi forseta:

„[E]igendabreytingar á félaginu [koma] til greina, en ekkert hefur enn verið ákveðið í þeim efnum. Erlendir og innlendir fjárfestingarsjóðir hafa sýnt félaginu áhuga og verður rætt nánar við hluta þeirra í framhaldinu.“

Svo mörg voru þau orð.

Þann 23. október, sjö vikum síðar, undirritaði stjórn Símans samning um sölu á öllum eignarhlut sínum í Mílu til Ardian. Salan var ekki borin undir hluthafafund. Það blasir við miðað við umfang viðskiptanna að allar líkur eru á því að málið hafi verið mun lengra komið en tilkynnt var til hluthafa þann 31. ágúst síðastliðinn. Það hljóta allir að gera sér grein fyrir því að það tekur lengri tíma en nokkrar vikur að klára svo flókin viðskipti með öllum þeim áreiðanleikakönnunum og samningsgerðum sem þeim fylgja, bæði við söluna og 20 ára leigusamningnum sem henni fylgir.

Síðan má ekki gleyma þeim sem seldu sinn hlut. Það eru ekki aðilar sem eru þekktir fyrir að bera almannahagsmuni fyrir brjósti. Stoðir, sem áttu 16% hlut í Mílu, standa á bak við þessa sölu. Stoðir eru FL Group og sú grúppa er Íslendingum vel kunn frá hruni þar sem hún átti stóran þátt í skaðanum sem þjóðin varð fyrir. Telja ráðherrar úr ríkisstjórn eðlilegt að jafn lítill hópur og raun ber vitni geti ráðskast með þessum hætti með grunnstoðir þjóðarinnar? Og setti ríkisstjórnin einhvern þrýsting á lífeyrissjóðina, sem eiga 62% í Mílu, að standa gegn sölunni í nafni þjóðarhags, eða er enn og aftur bara spilað með fjármagninu?

Síðan má ekki gleyma að við höfum ekki hugmynd um hver er að kaupa. Síminn var að selja mikilvæga innviði Mílu á 78 milljarða og fjárfestingarsjóðurinn Ardian er kaupandi. En veit ríkisstjórnin hverjir hinir eiginlegu fjárfestar eru? Þá er nær ómögulegt að finna og einhvern veginn efast ég um að ríkisstjórnin hafi vitneskju um hverjir þetta eru. Hæstv. forsætisráðherra leiðréttir mig þá hafi hann vitneskju um nöfnin, fólkið en ekki félögin að baki sjóðnum sem Ardian er að kaupa fyrir. En ef svo er ekki þá höfum við ekki hugmynd um hverjir hafi eignast grunnkerfi fjarskipta á landinu. Það er gríðarlega alvarlegt mál.

Almenningi hefur verið sagt að þessi eignaskipti muni ekki hafa nein áhrif á neytendur, hvorki kostnað né öryggi fjarskipta á landinu því að samhliða sölunni var gerður 20 ára leigusamningur milli Mílu og Símans. Gott og blessað. En hvað gerist eftir 20 ár? Og til hvers er verið að selja eitthvað til þess eins að leigja það til baka?

En það gerðist fleira á síðasta ári, því að í febrúar seldu Sýn og Nova mikilvæga innviði er tengjast 5G-uppbyggingu til félags sem heitir Digital Colony. Sýn og Nova munu, eins og Síminn, leigja innviðina aftur af kaupandanum. Tveir fjárfestingarsjóðir hafa því eignast næstum allt grunnkerfi fjarskipta á landinu á nokkrum mánuðum síðasta árs. Það sem verra er, er að þessir sjóðir, Ardian og Digital Colony, tengjast og hafa unnið náið saman í kaupum á fjarskiptainnviðum sem teygja sig til Norður-Ameríku og Evrópu. Og nú hafa þeir báðir gert samninga um kaup á mikilvægum fjarskiptainnviðum á Íslandi; Digital Colony við Sýn og Nova og Ardian við Símann, og í báðum tilvikum inniheldur samningurinn 20 ára leigusamning um afnot af sömu innviðum og seldir voru.

Eftir standa stórar spurningar: Hvaða stöðu eru íslenskir neytendur í þegar tengdir aðilar hafa með kaupum á mikilvægum fjarskiptainnviðum Íslands tryggt 20 ára samninga við alla fjarskiptarisa Íslands? Hver verður samkeppnin? Og trúir því einhver að sjóðir sem starfa náið saman á öðrum mörkuðum fari að keppa á litla Íslandi? Hafa nafntogaðar viðskiptablokkir, sem réðu í skjóli minnihlutaeignar á móti lífeyrissjóðunum, komist yfir gríðarlega fjármuni með innviðasölu þessara fyrirtækja og fórnað í leiðinni langtímahagsmunum heillar þjóðar fyrir skammtímagróða, sem ætti að vera landsmönnum kunnuglegt viðskiptamódel? Hvernig standa þessi fyrirtæki eftir viðskiptin þegar þau hafa verið tæmd að innan og læst inni í 20 ára viðskiptasambandi við fjárfestingarsjóði sem enginn veit raunverulega hver á? Og stóra spurningin: Hvernig ætlum við að skila fjarskiptamálum þjóðarinnar til komandi kynslóða?