152. löggjafarþing — 24. fundur,  19. jan. 2022.

framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2.

11. mál
[17:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mig langar að vekja athygli á svipuðu og hefur komið fram hérna, það er þetta með skipulagsvald sveitarfélaga. Það er flókið þegar það eru framkvæmdir sem ganga þvert yfir mörg sveitarfélög og það þarf samvinnu þar á milli til að ná einhverri niðurstöðu í uppsetningu framkvæmda. Stundum þarf vissulega ákveðinn úrskurðaraðila til að vega og meta hver sé besta niðurstaðan. En gullna reglan er að skipulagsvald er hjá sveitarfélögum. Mér finnst of oft gengið á það í framkvæmd hjá ríkisvaldinu. Það eru nokkur dæmi um þetta, t.d. varðandi Reykjavíkurflugvöll. Þau mál sem vilja einhvern veginn festa hann hér og þar þrátt fyrir að það hafi verið íbúakosning í Reykjavík og að íbúarnir vilji flugvöllinn burt. Það eru líka dæmi um þjóðaratkvæðagreiðslur sem hægt væri að vísa í, sem ekki er fylgt. En það er einmitt þannig að íbúalýðræðið er virkast og mest næst fólkinu, í sveitarfélögum. Það á að vera mikilvægast. Þar þurfum við að hlusta. Þó að niðurstaðan sé kannski óheppileg í stærra samhenginu og kosti aðeins meiri peninga hingað eða þangað þá er lýðræðið samt mikilvægara. Mig langar því að beina því til þeirra sem farið hafa með valdið allt of lengi og mjög frjálslega, enda kennir sá flokkur sig við frelsi, að þetta er röng notkun á frelsi.