Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 24. fundur,  19. jan. 2022.

úttekt á tryggingavernd í kjölfar náttúruhamfara.

12. mál
[18:39]
Horfa

Flm. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni andsvarið. Ég hef í sjálfu sér ekki velt því fyrir mér hvort að það sé skynsamlegt að óska umsagna um skýrslubeiðnir, en auðvitað er það þannig í störfum okkar þingmanna að maður treystir á að fá upplýsingar frá fólki í öllu samfélaginu og fær oft mjög góðar ábendingar, ýmist beint í tölvupóstum eða í gegnum skrif fólks í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum. Það starf sem við sinnum hér á Alþingi snýst auðvitað bara um samskipti við fólk og um að sækja upplýsingar til allra þeirra sem hafa áhuga á að veita þær og eru tilbúnir að koma þeim til skila og heimila okkur sem hér störfum að vinna úr þeim og nýta þær. Að sjálfsögðu eigum við alltaf að vera að velta fyrir okkur skilvirkustu leiðunum í þingstörfunum, bæði þeim formlegu og þeim óformlegu.