152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[10:45]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Það mætti halda að það væri ekkert að gerast hérna í samfélaginu. Hæstv. fjármálaráðherra er bara í fríi þegar verið að koma með neyðaraðgerðir í þágu atvinnulífsins vegna Covid-aðgerða ríkisstjórnarinnar og vegna sóttvarnaaðgerða. Það eru fréttir af því að börn séu innilokuð, alein í herbergi í sóttkví eða einangrun, en ekki fáum við að spyrja barnamálaráðherra út í það út af því að hann hefur ekki fyrir því að mæta í óundirbúnar fyrirspurnir og hefur ekki verið neitt ofboðslega duglegur að mæta í óundirbúnar fyrirspurnir yfir höfuð.

Svo eru fregnir af vinnumarkaðnum og einstæðum foreldrum sem eru í vondum málum eftir sóttvarnaaðgerðir og Covid-aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Það er ofboðslega mikið að gerast í samfélaginu. Það er enn þá neyðarástand í samfélaginu og ég krefst þess að ráðherrar mæti í óundirbúinn fyrirspurnatíma og sitji fyrir svörum á þessum tímum. Mér finnst óforskammað að hér séu tveir ráðherrar.