152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[10:51]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það er ágætt að fá smá samhengi í þessa umræðu en þetta er ákvæði í lögum um þingsköp þar sem stendur að að jafnaði eigi færri en þrír. Þessu var breytt árið 2012 þar sem þetta voru fimm áður. Það var sem sagt þannig að ráðherrum hafði fækkað þegar þetta ákvæði var sett í þingsköp og þá þótti eðlilegt að lækka töluna niður í þrjá og það var sveigjanlegt þannig að það gæti ráðist að nokkru leyti af því hvaða mál væru efst á baugi í þjóðfélagsumræðunni í hvert skipti. Með leyfi forseta er ég að vitna í breytingarákvæðið þegar þessu var breytt. Markmið ákvæðisins er að þingmenn, þó einkum þingmenn stjórnarandstöðu, eigi á hverjum tíma greiðan aðgang að forystumönnum ríkisstjórnarinnar með spurningar og að ráðherrar hafi tækifæri til að svara fyrir gerðir sínar. Flutningsmaður á þessari breytingu var núverandi virðulegur forseti, Birgir Ármannsson. Þá er það spurning núna þegar það eru bæði fleiri ráðherrar og líka fleiri flokkar hvort ekki þurfi að breyta þessari tölu.