152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

jarðgöng í Súðavíkurhlíð.

[11:02]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þann 16. janúar síðastliðinn voru 27 ár liðin síðan snjóflóðið féll á Súðavík þar sem ættingjar mínir létu lífið. Í hvert skipti sem ég heyri um snjóflóð fæ ég hroll. Fréttir að vestan herma að töluvert snjóflóð hafi fallið á norðanverðum Vestfjörðum í hríðarveðri sem geisaði. Þau stærstu sem fallið hafa féllu í nágrenni Flateyrar og Súðavíkurhlíðar. Einnig féll minna flóð í Skutulsfirði og Bolungarvík. Flateyrarvegur og vegurinn um Súðavík voru lokaðir á meðan á veðrinu stóð. Í Önundarfirði féll þó nokkurt snjóflóð. Tvö snjóflóð féllu á veginn um Súðavík úr farvegi fyrir ofan hlíðina. Síðasta sunnudag féllu sex snjóflóð úr Súðavíkurhlíð. Litlu munaði að stórslys yrði en losa þurfti bíl úr flóði sem flæddi yfir veginn. Sveitarstjóri Súðavíkur sagði það tímaspursmál hvenær einhver færi með flóðinu á haf út yrði ekkert aðhafst. Íbúar á svæðinu hafa kallað eftir því að jarðgöng verði gerð um Súðavíkurhlíð og krefjast svara við því hvers vegna þau jarðgöng eru ekki á samgönguáætlun. Fyrstu jarðgöngin á Íslandi voru einmitt göng sem grafin voru í gegnum Arnardalshamar milli Súðavíkur og Ísafjarðar árið 1948. Er ekki kominn tími til að ljúka þeirri vegagerð sem hófst fyrir rúmum 70 árum? Ég spyr því hæstv. ráðherra: Verða jarðgöng úr Súðavíkurhlíð hluti af næstu samgönguáætlun hans og einnig jarðgöng annars staðar þar sem stórhættulegir vegarkaflar á Íslandi eru og fólk er í lífshættu við að fara í og úr vinnu?