152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

jarðgöng í Súðavíkurhlíð.

[11:08]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður hefur eitthvað misskilið svar mitt. Ég sagði í svarinu að mjög víða, þar á meðal í Súðavík, væru aðstæður sem kölluðu á að skoða jarðgöng og að til skoðunar hjá Vegagerðinni væri sérstök jarðgangaáætlun sem ég setti af stað í síðustu samgönguáætlun og þingið samþykkti að yrði unnin. Sú vinna er í gangi. Og að við næstu samgönguáætlun yrði lögð fram samhliða endurbætt, betri, dýpri, metnaðarfyllri jarðgangaáætlun. Ég sagði jafnframt frá því að við værum með hugmyndir um hvernig við gætum fjármagnað slíka vinnu við jarðgangagerð næstu ár og áratugi, þannig að ég skil ekki að hv. þingmaður hafi ekki skilið svar mitt hér á mjög skýran hátt. Þetta er hluti af þeirri vinnu. Ég útskýrði um leið af hverju við værum ekki búin að gera alla hluti, það var vegna þess að það var tekin ákvörðun um forgangsröðun og um að fara fyrst í framkvæmdir þar sem vegirnir eru hættulegastir og taka flest mannslíf og valda alvarlegustu slysunum á hverju einasta ári. En það breytir því ekki að fleiri staðir eru undir á landinu öllu.