152. löggjafarþing — 25. fundur,  20. jan. 2022.

sóttvarnaaðgerðir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:57]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta innlegg og þessa umræðu um það hvernig samstaðan virkar best. Ég held að það sé ekkert óeðlilegt við það að fólk hafi ólíkar skoðanir en við svona aðstæður þegar fjölmargir aðrir þættir fara kannski virka þyngri í umræðunni heldur en það að verjast veirunni, þegar við erum komin með mildari afbrigði og það eru vísbendingar um að það sé hægt að fara að aflétta, þá skiptir öllu máli tímasetningin á því og um hvað aðgerðirnar snúast. Ekkert okkar er sérfræðingur á því sviði né er fullvissa fyrir því heldur erum við hér að taka mið af tillögum sóttvarnalæknis. Það er ekkert óeðlilegt við að fólk hafi misjafnar skoðanir á því hversu hratt þetta megi gerast. Við erum bara í þeirri stöðu núna, og það er sú áhersla sem ég hef í þessu, hvað varðar heilbrigðiskerfið að við erum með Landspítala á neyðarstigi vegna þess að 200 manns eru í einangrun — og þar kemur að þessu jafnvægi á milli takmarkana og frelsis — og þá þurfum við að manna það. Það höfum við gert með fjölmörgum aðgerðum sem ég fór yfir áðan. Hversu hratt okkur tekst síðan að aflétta takmörkunum er síðan spurning en öll myndum við helst vilja fara bara til fyrra horfs og okkar venjulega daglega lífs og skárra væri það nú ef fólk hefði ekki skoðanir á þessu. En við megum bara ekki gleyma því að við þurfum að koma okkur í gegnum þetta þannig að heilbrigðiskerfið ráði við stöðuna dag frá degi. Það er megináherslan hér.

Varðandi aðkomu þingsins þá hef ég komið inn á það fyrr í dag að ég tel sem mesta aðkomu þingsins æskilega. Þetta er hins vegar alltaf spurning um það á hvaða stað við erum í þessari viðureign, hversu hratt ákvarðanir þurfa að ganga og hvaða fyrirkomulag er á því hvernig við berum ákvarðanir undir þingið.