152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

stefna ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum.

[13:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Birtingarmynd sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarflokkanna síðastliðin fjögur ár kemur fram í hærri arðgreiðslum til eigenda sjávarútvegsfyrirtækjanna, mun hærri en þau borguðu síðan ríkinu í veiðigjöld. Síðan er það reyndar önnur birtingarmynd þessa dagana að það á skerða hlut smábátasjómanna. Við skulum líka hafa það hugfast að ríkið á eftir þetta að greiða alla þjónustu fyrir útgerðirnar sem tengist til að mynda Hafró, Verðlagsstofu skiptaverðs og Fiskistofu. Kvótakerfið, vel að merkja, var á sínum tíma mikilvægt og það var nauðsynlegt skref fyrir hagkvæman og sjálfbæran sjávarútveg. Vill Viðreisn kollvarpa kerfinu? Nei, en við viljum breytingar, tvímælalaust, því kerfið þarfnast uppfærslu fyrir þjóðina sem eins og sakir standa er algerlega misboðið hvernig fyrirkomulagið er varðandi einkaaðgang að auðlindinni. Við þurfum auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem undirstrikar skilyrðislausan rétt þjóðarinnar með tímabundnum samningum en ekki viðvarandi, óskilyrtan rétt útgerða líkt og stjórnarflokkarnir vilja. Við þurfum markaðsleið í sjávarútvegi eins og tæplega 90% þjóðarinnar vilja til að tryggja hennar hlut. Þjóðin treystir ekki þessu möndli stjórnarflokkanna um flókið og vanáætlað veiðigjald því þetta er ekkert annað en möndl þeirra á milli.

Við vitum að sjávarútvegsráðherra ætlar að skipa nefnd. Gott og vel. Við vitum ekki hvernig hún verður skipuð. Það eina sem við vitum er að það er einn fasti og það er að SFS verður örugglega í nefndinni. En hver er skoðun ráðherrans sjálfs? Hún var ekki skoðanalaus í þverpólitískri nefnd sem hún sat í sjálf eftir kosningarnar 2016 og hún er það vart nú nema himnarnir fari að hrynja yfir mig. Ég vil því spyrja í fyrsta lagi: Mun ráðherra beita sér fyrir markaðsleið í sjávarútvegi? Í öðru lagi: Mun hún beita sér fyrir tímabundnum samningum líkt og hennar nálgun var í þverpólitísku sáttanefndinni árið 2017? Og í þriðja lagi: Hver er skoðun ráðherrans á kerfinu? Hvar ætlar hún að beita sér fyrir breytingum í þágu þjóðarinnar, í þágu þess að við sjáum aukna sanngirni og réttlæti þegar kemur að fiskveiðiauðlind þjóðarinnar?