152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

stefna ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum.

[14:01]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég hef nú setið í embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, verðandi matvælaráðherra, í sjö vikur og hv. þingmaður var í því embætti fyrir nokkrum árum í allnokkra mánuði. Það er rétt, sem kemur fram í orðum hv. þingmanns, að þar sat sú sem hér stendur í nefnd sem ætlað var að fara yfir fyrirkomulagið, fiskveiðistjórnarkerfið, og leggja fram til tillögur til úrbóta. Ekki vannst tími til að gera það á þeim tíma, en þau sjónarmið sem ég hélt til haga við það borð eru þau sjónarmið sem ég held enn til haga og mun gera, m.a. viðhorf sem ekki fóru mjög hátt við borðið í þeirri nefnd, sem er krafan um auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Það var mín afstaða þá og er enn að það er mikilvægt að það ákvæði sé í grunnlöggjöf íslenska ríkisins, þannig að það sé algjörlega á hreinu á hverju það hvílir.

Mínar væntingar standa til þess að við getum sammælst um tilteknar breytingar sem lúta sérstaklega að því að auka gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi, og sérstaklega stærstu fyrirtækja landsins, vegna þess að sú samþjöppun sem átt hefur sér stað er ekki sanngjörn. Hún er ekki réttlát og hún er ekki í samræmi við væntingar samfélagsins um það hvernig þessari atvinnugrein á að vera fyrir komið.

Við þurfum líka að meta árangur af atvinnu og byggðakvóta og strandveiðum. Við þurfum að kanna hvort það fyrirkomulag, sem var reyndar komið á laggirnar í tíð Vinstri grænna í sjávarútvegsráðuneytinu, hafi sannarlega stutt atvinnulíf á landsbyggðinni.