152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

stefna ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum.

[14:05]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég hef aldrei verið sérstaklega þeirrar skoðunar að markaðurinn sé leiðin til að leysa allan vanda. Það greinir okkur sennilega að, mig og hv. þingmann, sem kemur kirfilega úr hægrinu í íslenskum stjórnmálum og telur að markaðslausnir séu yfirleitt rétta leiðin. (Gripið fram í.) Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við höfum fyrst og fremst að leiðarljósi heildarhagsmuni samfélagsins, og þá ekki bara byggðanna í landinu heldur ekki síður umhverfissjónarmiðin. Sjálfbær nýting auðlindanna og hagsmunir Íslands á alþjóðavettvangi að því er varðar hafið, hvort sem eru það eru umhverfissjónarmiðin, nýtingarsjónarmiðin eða utanríkissjónarmiðin, eru mjög mikilvægir þættir og verða undirstaða minna ákvarðana í þessu ráðuneyti. Ég treysti því að mér fylgi góðar óskar frá hv. þingmanni og formanni Viðreisnar í því verkefni.