152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

úthlutun strandveiðiheimilda.

[14:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Nei var gott svar. Ég fagna því svari sem hæstv. sjávarútvegsráðherra veitir hér. En ástæðan fyrir því að ég spyr er einmitt samstarfsflokkarnir, það er einfaldlega þannig. Við vitum alveg að kvótakerfisflokkarnir hleypa svona máli ekkert inn á þing. Það hefur verið þannig í áraraðir, alltaf, og ef VG vill ekki vera kvótakerfisflokkur þá hlakka ég til að sjá frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra. Þetta gæti t.d. verið mál svipað og þungunarrofsmálið sem kom hingað inn á þing og atkvæði voru greidd um þvert á ríkisstjórn og þvert á flokka; mál sem var samþykkt af því að á Alþingi var meiri hluti fyrir því máli þrátt fyrir ríkisstjórnarsamstarf. Við þurfum fleiri svoleiðis mál til að klára þessi stóru mál sem sumir flokkar halda einfaldlega í gíslingu, með sínum minni hluta, bara af því að þeir sitja í ríkisstjórn. Við þurfum að losa okkur við svoleiðis ómálefnaleg vinnubrögð.