152. löggjafarþing — 26. fundur,  25. jan. 2022.

færsla aflaheimilda í strandveiðum.

[14:37]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Við erum enn á svipuðum slóðum og ég hef verið hér í fyrri svörum. Ég er sammála því að sjálfbærni er algjör grundvallarhugsjón og hugmyndafræði um nýtingu auðlinda. Það er alveg sama hvaða auðlindir er um að ræða. Sjálfbær nýting snýst alltaf um það að við förum að vísindalegri ráðgjöf. Við getum ekki farið að henni stundum og stundum ekki, heldur þurfum við að horfast í augu við það að allar veiðar við landið þurfa að vera undir þessi lögmál sett og að sjávarútvegsráðherra, sama hvaðan hann eða hún kemur, getur ekki valið sér hvenær farið er að vísindalegri ráðgjöf og hvenær ekki. Ég vil bara nefna þetta af því að það er nú stutt síðan ég stóð hér og þá í öðru hlutverki og öðru embætti og lagði mikið upp úr því að vísindi, rannsóknir og besta mögulega þekking á hverjum tíma væri ávallt grundvöllur ákvarðanatöku. Ég hef ekki horfið frá þeirri meginhugsjón og það er ekki og verður aldrei sjálfbært að veiða umfram ráðgjöf. Það er grundvallarhugsun. Að veiða í samræmi við ráðgjöf er grundvöllur þess að við getum aukið veiðar síðar vegna þess að það rennir stoðum undir það að stofnarnir okkar geti vaxið og dafnað.

En ég vil líka segja, af því að hv. þingmaður nefnir hér meginstef sem ættuð eru úr umhverfismálunum og eru í raun og veru þessi umhverfisstef, og af því að við erum oft að tala um orkuskipti í samfélaginu og loftslagsmarkmiðin okkar, að það er afar mikilvægt í öllu tilliti að sjávarútvegurinn sé með í því að ná markmiðum í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er í raun og veru forsenda fyrir því að við náum þeim markmiðum að sjávarútvegurinn stígi fram og sé öflugur í því að taka þátt í því stóra sameiginlega samfélagsverkefni.