152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Menningarmálaráðherra tilkynnti í gær að ríkisstjórnin hefði ákveðið að verja 450 millj. kr. til viðspyrnu í þágu tónlistar- og sviðslistageiranna vegna alheimsfaraldurs kórónuveiru. Stjórnvöld einsettu sér að standa með listum og menningu allan heimsfaraldurinn og er þetta skýr vitnisburður um það og einn af nokkrum slíkum undanfarin tvö ár. Mikil tækifæri eru fólgin í því að hvetja listamenn til sköpunar og því er mikilvægt að styðja við þennan geira. Íslenskir listamenn eiga mikið erindi erlendis m.a. og meðal aðgerða þess efnis má nefna sérstakt framlag til Útflutningsmiðstöðvar íslenskrar tónlistar, tónlistarsjóðs og Tónverkamiðstöðvar. Hér er um að ræða myndarlegan stuðning við greinar sem hafa farið illa út úr faraldrinum þar sem markmiðið er að tryggja öfluga viðspyrnu frá frumsköpun til viðburðahalds. Heimsfaraldurinn hefur haft mikil og neikvæð áhrif á hagkerfið síðastliðna 22 mánuði og samdráttur hefur haft gríðarleg áhrif á verðmætasköpun í menningargeiranum, sérstaklega þeim greinum hans sem byggja tekjuöflun sína að mestu leyti á viðburðahaldi. Þannig voru greiðslur til rétthafa í tónlist vegna tónleikahalds á árinu 2021 til að mynda 87% lægri en samsvarandi tekjur árið 2019. Þá hafa sjálfstæð leikhús og leikhópar farið verulega illa út úr faraldrinum vegna þeirra sóttvarnaaðgerða og lokana sem verið hafa.

Virðulegur forseti. Þetta eru mjög brýnar aðgerðir í mörgum liðum, bæði til handa fólki í tónlist og þeim sem eru í sviðslistum sem munu efla íslenskt menningarlíf til framtíðar. Með þessu eru sjóðir og samtök styrkt verulega með það að markmiði að ná til sem flestra.