152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ein af eilífðaráskorunum ungs fólks er hvernig skuli fara með eigið fé. Sé leitað á vef Alþingis eftir efnisorðinu fjármálalæsi koma fram ógrynni af ræðum, þingmálum og umsögnum þar sem hugtakið kemur fram, sérstaklega eftir hrun. Markmiðið með auknu fjármálalæsi einstaklinga er skýrt; að efla færni til að taka upplýstar ákvarðanir um eigin fjárhag, að hjálpa fólki til sjálfshjálpar og sem tæki til að bæta félagslegar aðstæður og veita stjórnvöldum aðhald.

Ég vil vekja athygli á tveimur atriðum sem renna stoðum undir mikilvægi þess að við eflum verulega fjármálalæsi. Fyrra atriðið er áhrif Covid á fjárhag unga fólksins. Það er mikilvægt að við hlúum vel að unga fólkinu okkar í kjölfar heimsfaraldursins en áhrif hans á fjárhag einstaklinga eru okkur enn að fullu ókunn, eins hve mismunandi efnahagslegu áhrifin leggjast á einstaklinga. Er svo komið að fjármálalæsi er kennt í flestum grunn- og framhaldsskólum en gagnrýnd eru verulega gæði kennslunnar, námsefnið og þeim tíma sem varið er í kennsluna. Námsárangur í fjármálalæsi er einnig sjaldnast metinn eins og í öðrum námsgreinum.

Seinna atriðið er tenging fjármálalæsis við jafnrétti. Konur fara enn með minni hluta fjár en karlar. Að efla fjármálalæsi byggir undir valdeflingu kvenna til að taka ákvarðanir um eigið fjármagn. Það umhverfi að einungis strákarnir geti talað saman um Bitcoin og verðbréfamarkaðinn þarf að verða að sameiginlegu spjalli allra kynja. Við þurfum því að stuðla að viðhorfsbreytingu gagnvart kynjaðri umræðu um fjármál. Þröskuldurinn er enn til staðar. Það þarf að vera markmið okkar að jafna hann við jörðu.

Mig langar því að vekja athygli í raun allra ráðherranna á þessu máli, ég ætla að hlífa ykkur við upptalningunni, og hversu marga anga samfélagsins fjármálalæsið raunverulega snertir.