152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

evrópskir áhættufjármagnssjóðir og evrópskir félagslegir framtakssjóðir.

244. mál
[15:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra heildarlaga um evrópska áhættufjármagnssjóði og evrópska félagslega framtakssjóði. Frumvarpið er á þskj. 344 og er mál nr. 244. Frumvarpið kveður á um innleiðingu í íslenskan rétt á reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins nr. 345/2013 um evrópska áhættufjármagnssjóði og nr. 346/2013 um evrópska félagslega framtakssjóði. Einnig er lagt til að reglugerð nr. 2017/1991 um breytingu á framangreindum reglugerðum Evrópusambandsins verði veitt lagagildi hér á landi.

Markmiðið með báðum reglugerðunum er að beina fjármunum einkafjárfesta til lítilla og meðalstórra fyrirtækja og með þeim hætti auka atvinnutækifæri og vöxt innan Evrópska efnahagssvæðisins. Meginmarkmiðið með reglugerðinni um evrópska áhættufjármagnssjóði er að stuðla að atvinnusköpun og fjármagnsflutningum, hlúa að frumkvöðlastarfsemi og stofnun og eflingu nýsköpunarfyrirtækja og auka við fjárfestingar fyrirtækja í rannsóknum og þróun. Tilgangur reglugerðarinnar um evrópska félagslega framtakssjóði er aftur á móti öðru fremur sá að auðvelda fjárfestum sem vilja fjárfesta í fyrirtækjum með félagsleg markmið að finna og velja félagslega framtakssjóði. Jafnframt að auðvelda fyrirtækjum með félagsleg markmið að sækja sér fjármagn á Evrópska efnahagssvæðinu.

Meginefni frumvarpsins er lögfesting reglugerðanna og nauðsynlegra ákvæða þar að lútandi, svo sem um hvernig eftirlit fari fram, viðurlagaákvæði og um heimildir ráðherra og Seðlabanka Íslands til reglusetningar. Með gerðunum er kveðið á um skilyrði sem rekstraraðilar sjóða þurfa að uppfylla vilji þeir við markaðssetningu sjóða innan Evrópska efnahagssvæðisins nota heitið EuVECA yfir áhættufjármagnssjóði og EuSEF yfir félagslega framtakssjóði. Þetta eru heiti sem er sérstaklega ætlað að einkenna hvort fyrirkomulagið um sig, áhættufjármagnssjóði annars vegar og félagslega framtakssjóði hins vegar.

Meginefni reglugerðanna er í fyrsta lagi að kveðið er á um gildissvið þeirra, en reglugerðirnar gilda um þá sjóði sem teljast sérhæfðir sjóðir. Í öðru lagi er kveðið á um skráningarskyldu sjóðanna og rekstraraðila þeirra hjá lögbæru yfirvaldi. Skráning veitir heimild til markaðssetningar innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í þriðja lagi er kveðið á um hvaða fjárfestingar teljast heimilar sjóðum sem þessum. Sjóðirnir þurfa að fjárfesta a.m.k. 70% af heildarfjármagnsframlagi sínu og óinnheimtu stofnfé sem fjárfestar hafa skráð sig fyrir, í hæfum fjárfestingum. Fjárfesta má 30% af fjármununum í öðrum eignum en þeim sem teljast vera hæfar fjárfestingar. Þá er í fjórða lagi kveðið á um hverjir eru hæfir fjárfestar, en sjóðirnir eru eins og aðrir sérhæfðir sjóðir ætlaðir fagfjárfestum. Þó er heimilt að markaðsetja sjóðina til almennra fjárfesta að uppfylltum sérstökum skilyrðum til að tryggja fjárfestavernd. Í fimmta lagi er fjallað um önnur skilyrði þess að mega nota heitin EuVECA og EuSEF í markaðssetningu, svo sem háttsemisreglur fyrir rekstraraðila sjóðanna, reglur um hagsmunaárekstra og um útvistun á verkefnum rekstraraðila. Einnig eru sett skilyrði um stofnfé rekstraraðila og um eiginfjárgrunn þeirra. Sömuleiðis þarf að uppfylla kröfur um verðmat eigna, um ársreikninga sjóðanna og um fyrirframupplýsingar til fjárfesta. Í sjötta lagi er svo kveðið á um að Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin haldi úti opinberum miðlægum gagnagrunni um alla sjóði sem bera heitin EuVECA eða EuSEF og rekstraraðila þeirra, sem og þau lönd þar sem sjóðirnir eru markaðssettir.

Virðulegi forseti. Þau ákvæði sem lögð eru til í frumvarpinu koma einungis til með að hafa áhrif á þá rekstraraðila sérhæfðra sjóða sem ákveða að bjóða upp á umræddar sjóðategundir. Slíkir sjóðir eru ekki starfræktir hér eins og stendur, enda hefur íslenskt lagaumhverfi ekki boðið upp á það og ekki liggur fyrir hver eftirspurnin eftir stofnun þeirra verður. Tilteknar viðbótareftirlitskröfur bætast við skráningarskylda rekstraraðila sérhæfðra sjóða sem kjósa að bjóða upp á umrædd sjóðaform, svo sem í tengslum við mat á hæfi stjórnenda, eftirlit með markaðssetningu, viðskiptaháttum rekstraraðilanna, stjórnarháttum, útvistun verkefna o.fl. Ekki er gert ráð fyrir auknum umsvifum Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands vegna fyrirhugaðrar lagasetningar að svo stöddu, en komi til þess að rekstraraðilar ákveði að bjóða upp á þessar nýju sjóðategundir gætu umsvifin aukist upp að einhverju marki. Telja má að áhrif innleiðingar reglugerðanna verði óveruleg, að verkefnin tengd þeim rúmist innan núverandi rekstraráætlana Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og áhrif á ríkissjóð verði því engin.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. hér í þinginu.