152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

skattleysi launatekna undir 350.000 kr.

7. mál
[16:23]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Forseti. Það er sívaxandi fjöldi fólks sem hefur ekki efni á að halda heimili með sómasamlegum hætti. Það eitt og sér á ekki að líðast í þjóðfélagi eins og okkar. Það á enginn, á hvaða aldri sem hann er, að þurfa að líða skort, en sú staðreynd að börn eru á mörgum þessara heimila gerir stöðuna enn verri.

Setjum þessa hógværu kröfu um að enginn hafi minna en 350.000 kr. á milli handanna í samhengi við viðurkennd framfærsluviðmið. Á heimasíðu umboðsmanns skuldara er t.d. hægt að reikna út framfærsluviðmið. Þar er gengið út frá því að matur, hreinlætisvörur, fatnaður, læknis- og lyfjakostnaður og samgöngur, svo nokkuð sé nefnt, kosti samtals 180.533 kr. á mánuði. Þessi tala miðast við barnlausan einstakling. Fyrir einstætt foreldri með eitt barn hækkar þessi tala upp í 260.693 kr. og sé um að ræða hjón með tvö börn er talan 358.824 kr. Glöggir þingmenn hafa kannski tekið eftir því að inn í þennan kostnað vantar t.d. rafmagn, hita og tryggingar ásamt dagvistun barna, sem kostar svo sannarlega sitt, en það sem verra er, inn í þessar tölur vantar algjörlega húsnæðisliðinn. Húsnæðisliðurinn er stærsti útgjaldaliður allra heimila og varlegt að áætla að hann sé að minnsta kosti 180.000 kr. hjá þeim sem eru í leiguhúsnæði. 180.000 kr. þykir ekki hátt leiguverð í dag og það er ekki óalgengt að leiguverð sé hátt í 300.000 kr. á mánuði. Í ræðu sem ég hélt hér á Alþingi í síðustu viku sagði ég frá raunverulegu dæmi um leigu sem hefði á nokkrum mánuðum hækkað úr 280.000 upp í 320.000 vegna vísitöluhækkana og áhrifa Covid-19. Við getum sem sagt gengið út frá því að húsnæðiskostnaður sé ekki lægri en 180.000 kr., en burt séð frá því hvaða húsnæðiskostnað við viljum miða við, þá er ljóst að hann er hár og verulega íþyngjandi fyrir marga einstaklinga og fjölskyldur.

Til að ýkja vandann örugglega ekki og við miðum við lægstu töluna, 180.000 kr., verður okkur strax ljóst að þessi hógværa krafa um 350.000 kr. skatta- og skerðingarlaust dugar bara alls ekki til, ekki einu sinni fyrir barnlausa einstaklinga, því að það er einfalt reikningsdæmi að ef fæði og klæði kostar 180.000 og húsnæði 180.000 þá er samtalan 360.000, 10.000 kr. hærri tala en við erum að ræða hér. Þurfum við í alvöru að ræða þetta?

Aldraðir og öryrkjar fá í framfærslu frá Tryggingastofnun 240.000 kr. á mánuði. Hjá þeim sem ekki fá meira vantar 80.000 kr. upp á að endar nái saman í hverjum einasta mánuði. Þetta fólk á í alvöru ekki til hnífs og skeiðar. Ég fæ stundum á tilfinninguna að við sem búum við allsnægtir og höfum líklega aldrei kynnst þessum skorti höldum að verið sé að ýkja vandann þegar talað er um hópinn sem hefur áhyggjur af næstu máltíð og á ekki fyrir mat út mánuðinn. En það er ekki svo. Staðan er svona í alvöru á Íslandi í dag. Þvílíkt sem við megum skammast okkar fyrir að svo sé.

Er þetta stór hópur? Hvað það eru margir sem fá strípaðan lífeyri hef ég ekki tölur yfir. Ef þetta eru fáir, þá ætti nú að vera lítið mál að lagfæra kjör þeirra. En ef þeir eru margir, þá er algjörlega ljóst að við verðum að lagfæra kjör þeirra, því að annars hljótum við að þurfa að endurskilgreina Ísland og færa það í flokk þróunarlanda. Hvernig sem það nú er þá er ljóst að jafnvel þótt eitthvað bætist við þessa upphæð þá líður allt of stór hópur skort á Íslandi árið 2022. Það er forgangsmál Flokks fólksins að á Íslandi líði enginn skort. Það er ekki verið að tala um allsnægtir og ekki einu sinni jöfnuð. Bara það að allir eigi til hnífs og skeiðar, að enginn líði skort.

Þingmenn á strípuðum þingmannalaunum eru með 1.285 þús. kr. í laun á mánuði. Ég spyr: Gætum við lifað af 240.000 kr. á mánuði? Ég leyfi mér að efast um að nokkurt okkar gæti það. Þá má spyrja hvort við gætum lifað af 350.000 kr. á mánuði. Það er skárra, en ég held að við ættum flest erfitt með að sjá þá stöðu fyrir okkur. Kjarni málsins er sá að það er illmögulegt og varla hægt að lifa af tekjum sem eru lægri en 350.000 kr. á mánuði. 350.000 kr. skatta- og skerðingarlaust er algjört lágmark og í raun þegar orðið of lítið, ekki síst þegar litið er til þeirra verðhækkana sem þegar hafa orðið og sem fram undan eru. Það er Alþingi og ríkisstjórn til háborinnar skammar verði þessi þingsályktunartillaga ekki samþykkt. Við búum í einu ríkasta landi í heiminum. Hér flæðir fé inn í lokaðar hirslur sem fáir hafa aðgang að. Það er nóg til. Það fá bara ekki allir að njóta.

Ef við hugsum þjóðfélagið okkar eins og fjölskyldu, þá erum við fjölskylda sem lætur fjölskyldumeðlim svelta frekar en að neita sér um t.d. nýtt sófasett, skemmtanir eða utanlandsferðir. Ekkert okkar myndi gera það í raun og veru. Það yrði alltaf sett í forgang að hjálpa fyrst þeim sem þannig er ástatt um. Um það snýst málið og í raun er ótrúlegt að þessi umræða þurfi að fara fram, hvað þá að það þurfi að berjast fyrir þessari hógværu kröfu. Því að það er nóg til. Mér finnst þetta snúast um mannúð, samúð og virðingu fyrir manngildi einstaklinga. Ég treysti því að Alþingi sjái til þess að þeir sem verst standa í samfélaginu fái þessa lágmarksuppfærslu á sínum tekjum. Það má ekki minna vera.