152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

skattleysi launatekna undir 350.000 kr.

7. mál
[16:40]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Við erum greinilega á svipaðri blaðsíðu og hann með þekkingu af annars konar kerfi sem væri mjög gaman að leggjast yfir og skoða betur. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er sannarlega dálítið leyndardómsfullt þetta kerfi og langt frá því að við getum sagt að lífeyriskerfið sé gagnsætt og uppi á borðum. Við erum líka búin að mæla fyrir því, Flokkur fólksins, að það séu eigendur sjóðanna sem skipi þar meira stjórnir og ráðið þar meiru um heldur en atvinnurekendur og þeir sem í rauninni eiga ekki að koma nálægt lífeyrissjóðunum okkar. En yfirbyggingin og kostnaðurinn sem við fengum að sjá og vissum um fyrir þremur árum síðan var 20 milljarðar kr. og þá var það algjört leyndarmál hvað þessir sérfræðingar, sem eiga að vera þeir sem stýra hér fjárfestingum lífeyrissjóðanna, voru að greiða einhverjum sérfræðingum úti í heimi til að sjá um að ávaxta peningana okkar. Með hrolli þá rifja ég upp þá 600 milljarða kr. sem við töpuðum á einu bretti í síðasta efnahagshruni t.d. Þannig að miðað við það að geta fengið inn í rekstur ríkissjóðs á bilinu 50–70 milljarða kr. umfram á ári, það myndi ekki sjá högg á vatni á lífeyrissjóðseignum okkar og myndi nýtast þeim sem vildu gjarnan fá útborgað allt sem þeir eiga þegar þeir þurfa á því að halda á seinni stigum ævigöngunnar. Það væri betra fyrir þá að mínu viti a.m.k. heldur en að taka 36% af því sem þeir ættu að fá greitt úr lífeyrissjóði. Við getum alveg gert þetta, við getum fjármagnað hvað sem er, og eins og hv. þingmaður nefndi réttilega er það eina sem þarf samstarf og vilji.