152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

almenn hegningarlög.

202. mál
[17:23]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta frumvarp og ræðuna og margt gott sem kemur þar fram og greinargerðin er áhugaverð. Ég sjálfur hef verið áhugasamur um samfélagsþjónustu sem betrunarúrræði og mig langar aðeins að fjalla nánar um það í þessari ræðu. Þróun síðustu ára hefur falið í sér aukna notkun úrræða utan fangelsa í stað óskilorðsbundinna fangelsisdóma og eitt þessara úrræða er samfélagsþjónusta, sem þetta frumvarp gengur út á og er vel unnið að mínum dómi. Á vef Fangelsismálastofnunar er fjallað um samfélagsþjónustu og þar er ýmsum spurningum svarað um hana og fjallað er um skilyrði sem þarf að uppfylla og hvað gerist ef reglur um samfélagsþjónustu eru brotnar. Það er athyglisvert að skoða þetta á vefnum. Samfélagsþjónustan felur í sér tímabundið ólaunað starf sem getur komið í stað fangelsisvistunar, bæði vegna óskilorðsbundinna refsinga og vararefsinga fésekta. Ákvörðun um samfélagsþjónustu og framkvæmd hennar er síðan í höndum Fangelsismálastofnunar.

Einstaklingum sem afplána dóm sinn með samfélagsþjónustu hefur fjölgað síðustu ár. Þess eru dæmi að það séu fleiri í samfélagsþjónustu en vistaðir eru í fangelsum landsins. Einstaklingur sem sækir um og fær leyfi til að afplána í samfélagsþjónustu getur stundað fulla vinnu eða nám en notar frítíma sinn til að vinna launalaust í þágu góðra málefna. Mikilvægt er að hugsa um það hvernig líklegast er að menn geti staðið sig þegar þeir koma aftur út í samfélagið. Þetta er ákaflega mikilvægt þegar kemur að fangelsisvistun og því sem bíður einstaklinga þegar þeir hafa afplánað dóm sinn. Reynslan hefur sýnt að það gerum við með því að loka menn inni í eins skamman tíma og mögulegt er. Haft hefur verið eftir fangelsismálayfirvöldum að samfélagsþjónustan hafi reynst vel. Það er að sjálfsögðu eitthvað sem við eigum að horfa til. Aðeins um 16% þeirra sem afplána refsidóma á þann veg brjóta af sér að nýju. Einnig hafa verið auknir möguleikar til að afplána hluta fangelsisvistar í opnu fangelsi en það hefur einnig skilað árangri í því að menn brjóti síður af sér að lokinni afplánun.

Því miður er það þannig að margir fangar eiga við fíkniefnavandamál að stríða og við þurfum að gera betur í því að bjóða upp á fleiri meðferðarúrræði fyrir þá. Það er mikilvægt að við höfum sem besta þekkingu á árangri fangelsiskerfa í að hindra frekari glæpastarfsemi. Fangelsi eru mismunandi og er hvert sérstakt hvað varðar stefnur og aðgerðir.

Ísland og Noregur eru talin hafa væga refsistefnu sem leggur áherslu á endurhæfingu fanga en í Bandaríkjunum t.d. er refsistefnan harðari og skilar föngum ekki endilega endurhæfðum út. Fangelsismálayfirvöld þurfa að hafa góða þekkingu á því hvaða tegund refsingar skilar bestum árangri. Fangelsiskerfin á Íslandi og Noregi eru mun betur í stakk búin en hið bandaríska til að tryggja föngum farsæla endurkomu út í samfélagið. Þá skilar samfélagsþjónusta ekki lakari betrun en fangelsisrefsing og er jafnvel betri leið til að endurhæfa brotamenn.

Svokölluð ítrekunartíðni lýsir árangri fangelsiskerfa í að hindra frekari glæpastarfsemi og er ítrekunartíðni afbrota ein leið til þess að meta árangur ólíkra refsikerfa og gefur vísbendingar um gæði tiltekins refsikerfis. Hún var hæst fyrir auðgunarbrot, þjófnað og rán en lægst fyrir þá sem fengu dóm fyrir fíkniefnabrot og kynferðisbrot. Ítrekunartíðni afbrota var aftur á móti há fyrir allar brotategundir í Bandaríkjunum. Þá reyndist fyrri brotasaga vera sérstakur áhættuþáttur varðandi ítrekun afbrota sem varpar ljósi á gagnsemi samfélagsþjónustu sem úrræðis fyrir brot einstaklingsins. Þessar áhugaverðu upplýsingar koma fram í nýlegri BA-ritgerð í Háskóla Íslands eftir Ólafíu Laufeyju Steingrímsdóttur og ég hvet þingmenn til að kynna sér þá ritgerð. Hún er athyglisvert yfirlit um fræðilegar rannsóknir á árangri fangelsiskerfa í að hindra frekari glæpastarfsemi. Þar er vikið sérstaklega að samfélagsþjónustunni sem ég rakti hér. Ef ég fer aðeins nánar í það þá segir, með leyfi forseta:

„Samfélagsþjónusta hefur verið meira notuð sem úrræði í stað fangelsunar síðustu ár. Hún er einnig almennt talin hagkvæmari en að setja fólk í fangelsi og er því mikilvægt að athuga hver áhrif hennar eru á ítrekunartíðni. Flestar rannsóknir benda til að samfélagsþjónusta lækki ítrekunartíðni ekki marktækt borið saman við fangelsun. Þannig hafa rannsóknir ýmist sýnt fram á engan mun á milli fangelsis og samfélagsþjónustu […] eða þá að samfélagsþjónusta sé með lægri ítrekunartíðni en munurinn sé þó ekki marktækur […]. Þá kom fram í rannsókn Spaans […] að tilhneiging er til þess að einstaklingar sem afplána með samfélagsþjónustu fremji ekki jafn alvarleg brot og þeir sem eru sendir í fangelsi sem getur vissulega haft áhrif á lága ítrekunartíðni þessa hóps.“

Þá kom fram í rannsókn frá árinu 1998 að tilhneiging er til þess að einstaklingar sem afplána með samfélagsþjónustu fremji ekki jafn alvarleg brot og þeir sem eru sendir í fangelsi, sem getur vissulega haft áhrif á lága ítrekunartíðni þessa hóps. Árið 2001 var gerð rannsókn á ítrekuðunartíðni afbrota á Íslandi og hún sýndi mikilvæga niðurstöðu hvað þetta varðar. Þess má geta að rannsóknin var gerð á tímabilinu þegar samfélagsþjónustu var að byrja hérlendis og skoðaði ítrekunartíðni afbrota þeirra sem luku samfélagsþjónustu á árunum 1995–1998. Niðurstöðurnar voru að tíðni ítrekunar, þ.e. að viðkomandi snúi aftur í glæpastarfsemi, var almennt hæst meðal þeirra sem luku afplánun í fangelsi og lægst meðal þeirra sem luku afplánun með samfélagsþjónustu þegar litið er á þá sem lentu í nýjum afskiptum við lögreglu eða hlutu nýjan dóm innan þriggja ára. Þeim sem luku samfélagsþjónustu var fylgt eftir í þrjú ár eftir fullnustu og voru 17% þeirra fangelsuð á ný, 22% hlutu nýjan dóm og af 55% hafði lögreglan ný afskipti. Rannsókn var síðan gerð á árinu 2010 sem leiddi svipað í ljós. Af þeim sem hófu samfélagsþjónustu á Íslandi árið 2005 höfðu 16% fengið nýjan dóm innan tveggja ára.

Hvað varðar Noreg var ítrekunartíðni þeirra sem hófu samfélagsþjónustu árið 2005 23%. Reyndar var ítrekunartíðni þeirra sem hófu samfélagsþjónustu í Noregi hæst allra Norðurlandanna og litlu hærri en ítrekunartíðni þeirra sem luku afplánun í fangelsum þar. Helsta ástæðan fyrir því er að þeir sem dæmdir eru til samfélagsþjónustu í Noregi hafa oft fleiri dóma á bakinu en þeir sem dæmdir eru í samfélagsþjónustu í öðrum löndum. Ekki eru margar rannsóknir á árangri samfélagsþjónustu sem refsiúrræðis í Bandaríkjunum en í bandarískri rannsókn frá 1986 voru áhrif samfélagsþjónustu skoðuð og borin saman við einstaklinga sem fengu stuttan fangelsisdóm. Alls 494 brotamenn sem gegndu samfélagsþjónustu voru bornir saman við 417 brotamenn sem fengu fangelsisdóm. Endurkomutíðni var skoðuð í sex mánuði eftir að þeir luku afplánun. Niðurstöður leiddu í ljós að sex mánuðum eftir afplánun var endurkomutíðni þeirra sem afplánuðu með samfélagsþjónustu 43% en þeirra sem afplánuðu í fangelsum í 41%. Munurinn var ekki tölfræðilega marktækur en bent var á að aðferðafræðilegar takmarkanir og mögulega tölfræðilegar villur væru í þessari rannsókn. Bandarískir fræðimenn reyndu að bæta þetta með rannsókn árið 2007 sem bar saman árangur samfélagsþjónustu og hefðbundinna fésekta fyrir menn sem höfðu framið smáafbrot í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum og náði rannsóknin yfir 422 einstaklinga og var rannsóknartímabilið eitt ár. Niðurstöður sýndu að ítrekunartíðni þeirra sem höfðu verið dæmdir til samfélagsþjónustu var 34% samanborið við 36% þeirra sem þurftu að borga fésekt. Niðurstöðurnar sýndu einnig að þeir sem taka þátt í samfélagsþjónustu voru ólíklegri til að brjóta af sér aftur en þeir sem þurftu að greiða fésekt þegar stjórnað var fyrir ákveðnum breytum, t.d. kyni, kynþætti, fyrri handtökum og þyngd refsingar. Niðurstöðurnar styðja þannig við notkun samfélagsþjónustu fremur en önnur samfélagsleg úrræði fyrir minni háttar brot. Þessar niðurstöður eru sérstaklega áhugaverðar þegar tekið er inn í myndina að í samfélagsþjónustunni voru afbrotamenn með alvarlegri brot heldur en þeir sem þurftu að borga sektir.

Í Noregi er refsistefnan frekar væg og leggur áherslu á betrun fanga og refsing í fangelsum felst í takmörkun á frelsi dómþola án þess að önnur réttindi þeirra séu skert. Umhverfið og lífið í fangelsunum líkist hefðbundnu samfélagi og skilyrði eru ekki strangari en nauðsyn þykir. Þá hefur betrunarstefna sem Noregur vinnur eftir skilað einni lægstu ítrekunartíðni afbrota í heiminum sem er mjög athyglisvert. Þetta sést í rannsókn sem var gerð árið 2010 þar sem ítrekunartíðni afbrota einstaklinga sem losnuðu úr fangelsi árið 2005 var 20% innan tveggja ára.

Refsistefnan í Bandaríkjunum er sem kunnugt er harðari en í Noregi og viðhorfið í refsikerfinu þar er að hertar refsingar skili lægri glæpatíðni. Vegna þessa eru áætlanir um endurhæfingu ekki í forgangi innan fangelsanna þar, enda skortir sárlega úrræði og formlegar aðgerðir sem eiga að búa dómþola undir líf án afbrota. Þessi stefna virðist ekki skila tilætluðum árangri sem sést best á því að í Bandaríkjunum gengur sérlega illa að halda dómþolum úr fangelsum.

Á Íslandi er fangelsisrefsingum ekki beitt nema nauðsyn krefjist og þær hafa ákveðin markmið. Þetta viðhorf endurspeglast í fangelsiskerfinu á þann hátt að fangelsin eru bæði lítil og fá. Fangelsin hafa verið skipulögð út frá órefsimiðuðum aðferðum sem eiga að stuðla að endurhæfingu fanga og tryggja dómþolum farsæla enduraðlögun að samfélaginu, sem er að sjálfsögðu mjög mikilvægt. Vegna fjárskorts hefur þó lögbundnum verkefnum í fangelsismálum landsins ekki verið nægilega vel sinnt. Þetta er m.a. mat Helga Gunnlaugssonar, prófessors í afbrotafræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Á allra síðustu árum hafa gæði í þjónustu við fanga aukist. Í ljósi þessa hefur gengið vel á Íslandi að endurhæfa fanga og halda þeim frá fangelsum. Þannig sýndi, eins og áður segir, rannsókn frá árinu 2001 að ítrekunartíðni dómþola sem losnuðu úr fangelsi á bilinu 1994–1998 var 29% innan þriggja ára frá lausn. Er þetta í takt við niðurstöður rannsóknar frá 2010 þar sem ítrekunartíðni einstaklinga sem losnuðu úr fangelsi á Íslandi árið 2005 mældist 24% innan tveggja ára.

Í ljósi þessara niðurstaðna er almennt hægt að álykta að refsistefna landanna hafi óneitanlega áhrif á árangur landanna í að endurhæfa brotamenn og þar af leiðandi á líkur á því að dómþoli brjóti af sér á nýjan leik. Vægari refsistefna með áherslu á að betra fanga, t.d. í formi menntunar og starfsnáms, sé til þess að þeir öðlist einhverja hæfni sem þeir geta nýtt sér í lífinu eftir afplánun. Með þessum hætti eru fangar sendir út í samfélagið sem bættir einstaklingar sem eru jafnvel betur í stakk búnir til að takast á við lífið en þeir voru áður en þeir lentu í fangelsi til að byrja með.

Hörð refsistefna eins og sú bandaríska er ekki mannbætandi á neinn hátt, enda virkar ekki að henda einstaklingum inn í fangelsi og ætlast til þess að þeir geti án nokkurs konar úrræða lært af mistökum sínum og komið sem betri menn út í samfélagið. Þar sem eitt af markmiðum fangelsis á alþjóðavísu er að endurhæfa fanga er mikilvægt að þeim séu tryggð viðeigandi úrræði og aðstoð við enduraðlögun að samfélaginu og lífi án glæpa. Þegar ítrekunartíðni dómþola sem afplánuðu með samfélagsþjónustu er skoðuð virðast slík viðurlög ekki skila lakari árangri en fangelsisrefsingar. Í rannsókninni frá 2001 höfðu þannig 17% dómþola á Íslandi sem afplánuðu með samfélagsþjónustu verið fangelsuð á ný innan þriggja ára.

Frú forseti. Ég hef aðeins komið inn á hluti sem varða samfélagsþjónustuna sem mér finnst athyglisvert að komi hér fram. Það er margt fleira sem ég gæti fjallað um en tímans vegna verður það að bíða betri tíma. Eins og ég segi má sjá af þeim niðurstöðum sem ég var að rekja hér um ítrekunartíðni dómþola sem luku afplánun í fangelsi að samfélagsþjónusta er ekki lakara úrræði með tilliti til ítrekunar. Ég held að þess vegna sé mikilvægt að við skoðum þessi mál, því að öll hljótum við að stefna að því sama markmiði að þeir sem hafa afplánað dóm sinn komi sem betri einstaklingar út í samfélagið á ný og ég tel að við eigum svo sannarlega að skoða samfélagsþjónustu í þessum efnum.