152. löggjafarþing — 27. fundur,  26. jan. 2022.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

170. mál
[19:17]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi orð. Ég er ekki að taka afstöðu, ég er að varpa fram þeirri spurningu hvort þessi ótti kvikmyndageirans sé raunverulegur. Ég veit að ótti þeirra er raunverulegur sem eru á hinum frjálsa markaði og allir fjölmiðlar á Íslandi berjast í bökkum. Blöðin eiga í miklum erfiðleikum, því að eins og áður var vikið að, rétt eins og í tónlistinni, er verið að nota efnið út um allt. Þú nálgast það í gegnum Google og Youtube nokkurn veginn eins og þig lystir án endurgjalds. Væri ekki einn varnarleikurinn fólginn í því að Kísildalsfyrirtækin risastóru, sem deila efninu okkar, hvort sem það er ritað mál, fréttir, tónlist eða kvikmyndir, væru látin sæta eðlilegri gjaldheimtu, virðisaukaskatti og öðru sem telst sjálfsagt og eðlilegt á Íslandi?

Ég tek fram að ég er heils hugar sammála þeim styrkjum sem fjölmiðlum hafa verið veittir á undanförnum misserum. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt við þessar aðstæður. Þetta eru umbrotatímar í miðlun og í blaðamennsku og fjölmiðlarekstri, tónlistar- og kvikmyndaframleiðslu. Það er allt að breytast og við erum sennilega ekki alveg komin að því að geta fullyrt að svona muni þetta verða til eilífðarnóns. Ég fagna því áhuga hv. þingmanns á því að gera hér sanngjarnar betrumbætur. En við verðum að velta upp öllum flötum málsins áður en yfir lýkur.