152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

orkumál.

[11:02]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég veit að orkumálin heyra ekki beinlínis undir ráðherra en þetta eru jú innviðamál, eins og ég kom inn á í upphafi, og ég veit að ráðherra hefur áhuga á þessum málum. Í lokin kom aftur þetta svar að við þyrftum frekari vinnu í málið. Ég er kannski að reyna að knýja það fram að við höfum ekki tíma fyrir heilt kjörtímabil í frekari skoðun á málinu, við þurfum aðgerðir. Ég er því með tvær viðbótarspurningar. Annars vegar: Hvað þýðir það að stjórnarsáttmálinn kveði á um að setja eigi fleiri kosti í biðflokk? Eru það fleiri kostir sem nú eru í nýtingu eða fleiri kostir sem nú eru í verndarflokki? Hvað þýðir þetta og hefur ráðherra ekki áhyggjur af því, eins og okkur liggur á, að þetta muni leiða til þess að tefja málið enn meira frekar en að flýta því?

Af því að ráðherra nefnir vindorkuna: Nú lagði fyrrverandi umhverfisráðherra fram frumvarp fyrir hálfu ári eða svo (Forseti hringir.) sem margir sem mest vit hafa á þessum málum telja að hefði endanlega bundið enda á möguleika okkar til að virkja vindinn. (Forseti hringir.) Hvaða skoðun hefur hæstv. ráðherra á því? Munum við sjá annars konar og breytt frumvarp ríkisstjórnarinnar um vindorkuna á þessu kjörtímabili?