152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

orkumál.

[11:03]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Já, í stjórnarsáttmálanum tölum við um að það þurfi að bregðast við þeim augljósa vanda sem er eftirspurn eftir grænni orku í orkuskipti. En á sama hátt þurfum við auðvitað að vanda okkur við það og velja vel hvaða svæði við ætlum að nota í því sambandi. Í mínum huga er nokkuð skýrt, og það er það sem ég tek með mér eftir það samtal sem við áttum við stjórnarmyndunina, að það þarf að leysa rammaáætlun 3 úr þeim vanda eða viðjum sem hún hefur verið í með því að stækka biðflokkinn. Ég hef verið á þeirri skoðun býsna lengi. (Gripið fram í: … búinn að hafa sex ár til þess.) Það þýðir væntanlega að menn taki bæði úr nýtingarflokki og verndarflokki og segi: Heyrðu, við skulum bara geyma þetta til komandi kynslóða. Það sama gildir um vindinn. Ég held að menn hafi ekki verið komnir á rétta braut og þess vegna var ég að tala fyrir annarri nálgun áðan, að við myndum byrja á því og síðan í framhaldinu gefa okkur tíma í að fara heildstætt yfir hvernig ramminn um vind getur verið tekinn í regluverk á Íslandi.

— Afsakið, herra forseti, að ég skyldi ekki verða við orðum þínum um að halda mig innan tímamarka. (Gripið fram í: Fyrirframafsökun.)

(Forseti (BÁ): Forseti þakkar hæstv. ráðherra fyrir að viðurkenna yfirsjón sína.)