152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

orkumál og stofnun þjóðgarðs.

[11:07]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég myndi telja stjórnarsáttmálann mjög skýran hvað varðar að þar er gefin mjög skýr yfirlýsing um að ekki verði gefin út leyfi til olíuleitar og á þingmálaskrá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra er boðað frumvarp þar sem tekið verður á þessum málum. Ég myndi telja að þó að það hvíli í höndum ráðherra að útfæra þetta með endanlegum hætti í löggjöf þá sé andi laganna sá að við séum ekki að horfa á vinnslu óendurnýjanlegra orkugjafa í lögsögu Íslands.

Hvað varðar þjóðgarð sem hv. þingmaður spyr um þá er þar verið að horfa á friðlýst svæði innan miðhálendislínu, bara til að skýra það af því að hann nefndi öll friðlýst svæði. Í fyrsta lagi afmarkast þau af miðhálendislínu og síðan aftur er það útfærsla sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ber ábyrgð á og eins og hv. þingmaður getur lesið í stjórnarsáttmála er kveðið á um samráð um útfærslu við heimamenn og aðra aðila þannig að endanleg afmörkun þjóðgarðs mun ekki birtast fyrr en ráðherrann leggur fram frumvarp. En við getum sagt sem svo að til skoðunar eru öll friðlýst svæði innan miðhálendislínu.