152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[12:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um mál sem felur í sér stórfellda útþenslu á ríkisbákninu. Þetta er fyrst og fremst pólitískt mál til að fjölga ráðherrum svo að Framsóknarflokkurinn geti fengið fleiri ráðherra í samræmi við niðurstöðu þingkosninga.

Það velkist enginn í vafa um það að framkvæmdarvaldið getur ákveðið hvernig ráðuneytaskipan er viðhöfð hverju sinni. Enginn mótmælir því. En þau skref sem hér eru stigin eru mjög útlátamikil og eru vanhugsuð að einhverju leyti. Sum skref eru ágæt en stóra myndin er sú að þetta er þensla, við erum að belgja út báknið, við erum að fjölga ráðherrum. Það var aldrei tekið inn í breytuna hvort hægt væri að fækka ráðherrum, það kom aldrei til greina.

Ég mun ekki greiða atkvæði með þessu máli. Ég mun ekki þvælast fyrir þessu máli. Ég mun sitja hjá við afgreiðslu þessa máls, en mér finnst dæmalaust að það séu fyrstu skref þessarar ríkisstjórnar, þessarar gömlu ríkisstjórnar, að fara í þá vegferð að þenja út báknið, (Forseti hringir.) ekki á faglegum forsendum heldur fyrst og fremst þeim pólitísku forsendum sem felast í því að það þurfti að fjölga ráðherrum fyrir Framsóknarflokkinn.