152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[12:18]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Að mínu viti var alveg augljóst við meðferð málsins hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til hvers refirnir voru skornir þegar ráðuneyti var stokkað upp, það þanið út og því breytt með þeim hætti sem fyrir liggur í þessu máli. Það var fært í faglegan búning hér í þingsal og einnig hjá mörgum þeim sem töluðu fyrir nefndinni. Aðrir bentu hins vegar á það, sem rétt er, að þetta er í hrópandi andstöðu við það sem mótað var á sínum tíma upp úr hruninu hvað varðar það hvernig Stjórnarráðið ætti að vera; með færri, stærri og sterkari ráðuneytum sem hafa faglegri burði til að verjast oft ásókn sérhagsmuna innan þeirra.

Það er alveg ljóst að mati Viðreisnar að verið er að breyta Stjórnarráðinu til að bregðast við kosningaúrslitum. Það er ekkert faglegt við þessa afgreiðslu, en það er hins vegar pólitískur réttur ríkisstjórnar á hverjum tíma að móta Stjórnarráðið eftir sínu höfði. Við munum því ekki greiða atkvæði gegn tillögunni (Forseti hringir.) en ríkisstjórnin verður sjálf að bera ábyrgð á því hvernig Stjórnarráðið er mótað næstu fjögur árin. (Gripið fram í.)