152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[12:39]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er rétt að umgjörð á alltaf að ná utan um innihaldið. Kassinn á að passa utan um það sem í honum er. En innihaldið er ekki að breytast. Það eru nákvæmlega sömu viðfangsefni, en það er búið að ákveða, bara svona á milli fólks, að eyða í það mörg hundruð milljónum.

Talandi um forgangsröðun. Við sitjum sveitt svo dögum skiptir við að reyna að berja inn 5 og 10 milljónir hér og þar til að negla saman fjárlagafrumvarp og svo kemur svona pakki, af því bara. Við vorum í leðjuslag rétt fyrir jól til að reyna að ná utan um jólagjafir til fátækra barna á Íslandi og þetta eru kveðjurnar sem við erum að senda þeim. Ég er svo hissa á að standa hér og (Forseti hringir.) svo kemur hæstv. ráðherra og fer að blaðra um Evrópusambandið af því að við erum á móti þessu. (Forseti hringir.) Hvaða rugl er þetta? Ég næ ekki utan um þetta. Ég er á móti þessu og ég ætla að greiða atkvæði gegn þessu.