152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[12:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það eru áhugaverðar ásakanir um íhaldssemi sem fljúga hérna. Ég held að enginn hafi sagt að ekki sé tilefni til að breyta til, að sjálfsögðu er það svo. Við viljum bara fá útskýringar á því hvernig breytingarnar leiða til góðs. Það er ekki nóg að segja bara: Þetta verður frábært. Það þarf að útskýra af hverju. Útskýringuna vantar algjörlega í þessa þingsályktunartillögu og í nefndarálit meiri hlutans og það er það sem við biðjum um, sérstaklega þegar þetta kostar pening. Af hverju er það þess virði að eyða þessum pening í þessar breytingar ef það er ekki einu sinni útskýrt? Til hvers? Getið þið sýnt mér það svart á hvítu hvernig þetta mun skila ábata fyrir íslenskt samfélag? Ef þið getið það þá skal ég glaður greiða atkvæði með þessari þingsályktunartillögu. Ef ekki er ég að sjálfsögðu á móti henni, að sjálfsögðu.