152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[13:04]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég hef þegar rakið það hver ástæðan fyrir þessari frávísunartillögu er og það er málsmeðferðin, að hún sé ekki í samræmi við 2. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. 15. gr. stjórnarskrárinnar er alveg skýr og hún segir, með leyfi forseta:

„Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.“

Það segir ekkert um að Alþingi eigi að koma að þessu, ekki neitt. Eins og ég sagði áðan er ég ekkert á móti þessum breytingum, ríkisstjórnin skipuleggur sig eins og hún vill og það er algerlega kominn tími til þess að endurskoða lög um Stjórnarráð Íslands. Það er eins með þessa frávísunartillögu og bara í skólanum, nemandi er sendur til baka með skjalið og hann á að koma með það eins og ætlast er til, hann á að skila því samkvæmt þeim kröfum eru í lögunum.

Ég vil nota tækifærið hér og skora á forsætisráðherra að sameina nú forsetaúrskurðina tvo frá frá 28. nóvember, nr. 125 og 126, vegna þess að hann þarf að uppfæra þá núna, að (Forseti hringir.) hann sameini allt í einn forsetaúrskurð með skjalinu í dag (Forseti hringir.) sem heiti þá forsetaúrskurður um Stjórnarráð Íslands. Jafnframt vil ég skora á forseta þingsins (Forseti hringir.) að beita sér fyrir endurskoðun á lögum um Stjórnarráð Íslands.