152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

253. mál
[15:53]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á að segja að ég tek undir orð hv. þingmanns sem talaði hér á undan mér, Jakobs Frímanns Magnússonar. Við þurfum talsvert meira af viðreisn á öllum sviðum samfélagsins en ég fagna því að fram sé að koma mál, þótt færa megi rök fyrir því að það sé svolítið seint til komið, sem ætlað er að grípa aðeins utan um þá aðila, fyrirtækjaeigendur og aðra, sem eiga um sárt að binda, ekki síst vegna þeirra hörðu ráðstafana sem gripið var til fyrir skemmstu. Mér finnst yfirlýsing hæstv. fjármálaráðherra í upphafi viku, um að forsendur fyrir þessum hörðu takmörkunum séu í raun brostnar — það er ekki að fara að gerast, heldur er það orðið, forsendubresturinn er orðinn. Lögmæti þessara hörðu takmarkana er ekki lengur til staðar.

Mér finnst það setja öll þessi mál, öll þessi viðspyrnumál, ef við getum kallað þau svo, í svolítið annað samhengi og ég sakna pínulítið umræðu um það hvort við séum í þeirri stöðu að ríkið sé að setja á takmarkanir sem eigi sér ekki lagastoð og síðan séum við með efnahagslegar ráðstafanir vegna skaða sem verði til í einhvers konar ólögmæti. Ég myndi vilja fá að sjá einhvers konar greiningu á því — ég trúi að því hafi verið velt upp í ráðuneytinu og menn hafi skoðað það — hvers konar upphæðir við gætum verið að tala um í því samhengi. Ég er alveg sammála hæstv. fjármálaráðherra í því sem hann nefndi áðan, að þegar við erum að tala um lögmæti þessara aðgerða erum við auðvitað að tala um matskennda hluti og menn hafa alls konar skoðanir á því. Það hefur svo sem líka verið staðfest, og ég held að við tökum öll undir það, að stjórnvöld verða að hafa rúmt svigrúm þegar við heimsfaraldur er að eiga. Þegar við erum hins vegar með þá stöðu að gæslumaður opinbers fjár, fjárhirslna ríkisins, hæstv. fjármálaráðherra, er þeirrar skoðunar að lögmætið sé horfið er sú spurning auðvitað áleitin hversu háar fjárhæðir við erum þá að borga út úr ríkissjóði í óþarfa, af því að menn fóru of geyst, af því að menn gættu ekki nægilega vel að meðalhófi.

Auðvitað snýst þetta líka um það, og þá er ég að hugsa þetta heildstætt, að fyrirheitin um aðgerðirnar sem verið er að grípa til vegna þessara ráðstafana — komin er reynsla á þær rétt eins og sóttvarnaráðstafanirnar — hefðu getað komið fyrr til að þeir rekstraraðilar sem hér eru undir — og það er ekki bara veitingageirinn, það er menningargeirinn sem er að taka mikið högg, og fleiri — gætu þó a.m.k. verið með fast land undir fótum og gert áætlanir aðeins fram í tímann. Við vitum auðvitað að sumir þeirra eru að reka fyrirtæki sín, eftir allar þessar hremmingar í öllum faraldrinum, nánast frá degi til dags, eru að reyna að fleyta sér fram yfir hver mánaðamót í hálfgerðri örvæntingu í þeirri von að landið fari að rísa, og það vonum við auðvitað öll.

Það hefur verið mjög áhugavert að fylgjast með umræðunni í þinginu í dag. Það virðist vera nokkur samhljómur um að nú sé orðið mjög brýnt að slaka aðeins á klónni og veita lögmætt súrefni, getum við sagt, til rekstraraðila, fyrirtækjaeigenda og starfsmanna, að þessir aðilar geti farið að haga rekstri sínum með eins eðlilegum hætti og mögulegt er. En það getur verið svolítið erfitt að meta beint fjárhagstjón. Við vitum ekki hve mikill samdráttur er í veltu vegna þess eins að fólk fer sér hægar þrátt fyrir að færa megi rök fyrir því að tilteknar samkomutakmarkanir hafi ekki bein áhrif á aðila í viðskiptalífi, rekstri, menningarlífi, íþróttalífi eða þar fram eftir götum.

En af því að hæstv. fjármálaráðherra er kominn hingað í salinn velti ég þessum punkti aftur upp. Ég hef verið hrifinn af því hvernig hann hefur talað í vikunni um að lögmæti hörðustu sóttvarnaráðstafana sé brostið og ég spyr hvort menn hafi eitthvað verið að skoða það í ráðuneytinu hvort það geti verið að ríkissjóður hafi komið sér í þá stöðu að vera að óþörfu að auka útgjöld sín vegna þessara efnahagslegu ráðstafana, vegna þess að samkomutakmarkanir og sóttvarnaráðstafanir hafi ekki alveg fallið undir það sem við getum skilgreint sem einhvers konar meðalhóf. Ég veit að það er auðvitað erfitt að reikna þetta allt saman út og ég árétta það líka, sem ég sagði hér áðan, að menn eru bara að tala um sínar skoðanir og einhvers konar eigið stöðumat á því hvenær aðgerðir teljist lögmætar og hvenær ekki, og hvenær farið sé yfir þann þröskuld. Engu að síður væri áhugavert að heyra það betur frá hæstv. fjármálaráðherra hvort ríkissjóður sé í raun og veru að fara að greiða út fjármuni vegna aðgerða sem ekki er lagastoð fyrir, jafnvel í einhverja daga eða vikur, en nú er verið að tala um að sú afléttingaráætlun sem búið er að boða verði mjög varfærin. Eins væri ágætt að heyra einhverjar vangaveltur um það, ef hæstv. fjármálaráðherra myndi vilja verða við því, hvort það geti verið að menn séu jafnvel dottnir á þann stað að ríkið sé farið að baka sér einhvers konar bótaskyldu vegna þess að ekki sé lengur gætt meðalhófs við þær ströngu takmarkanir sem ríkja. Því rétt eins og hæstv. fjármálaráðherra benti sjálfur á í ræðu sinni áðan beina allar tölur okkur í eina ákveðna átt, þ.e. að staðan í faraldrinum sé miklu betri en menn héldu að yrði. Nú er komin nokkurra vikna reynsla á það að þetta afbrigði er ekki að skila nema kannski 0,2% eða 0,1% smitaðra í innlögn á spítala. Engu að síður erum við enn í þessum ströngu aðgerðum. Ég vildi leggja þetta inn úr því að við erum að ræða þetta mál núna.