152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

umsækjendur um alþjóðlega vernd.

[15:26]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er óheppilegt að uppskipting Stjórnarráðsins bitni svona harkalega á fólki í neyð þegar sá sem fer með þjónustu fólks í leit að vernd hér á landi er ókunnugt um að í samráðsgátt liggi frumvarp frá hæstv. innanríkisráðherra er varðar málefnasvið hæstv. félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra. Þetta er eitt dæmi um þann rugling sem þessi uppskipting hefur valdið inni í stjórnkerfinu, eitthvað sem við hér í stjórnarandstöðunni höfum mótmælt harðlega, enda er yfirsýnin greinilega engin og ráðherrar þekkja illa sín málefnasvið. Auðvitað hefur maður fullan skilning á því að það taki tíma að setja sig inn í embætti, en það er óheppilegt þegar ráðherrar eru beinlínis að leggja fram frumvörp sem ekki eru á þeirra málefnasviði.

Þá vil ég að lokum spyrja hæstv. félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra út í uppsögn á þjónustusamningi við Rauða kross Íslands, (Forseti hringir.) hvort honum er kunnugt um uppsögn á þeim samningi, en (Forseti hringir.) starfsfólk Rauða krossins fékk uppsagnarbréfið afhent í dag.