152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

samstaða um gerð kjarasamninga.

[15:40]
Horfa

félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum aftur fyrirspurnina. Líkt og ég kom inn á í máli mínu áðan þá held ég að það séu stórar áskoranir fram undan þegar kemur að kjarasamningum. Við heyrum það öll í umræðunni að aðilar vinnumarkaðarins eru farnir að setja svolítið fram hvað það er sem þeir telja að þurfi að koma til og hv. þingmaður kom inn á það í fyrri fyrirspurn sinni. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að þær ákvarðanir um aðkomu stjórnvalda sem teknar verði nýtist þeim sem minnst hafa á milli handanna. Það er mín skoðun. Ég nefndi hér áðan húsnæðismálin sem ég held að muni skipta lykilmáli í aðkomu hins opinbera líkt og var í síðustu kjarasamningalotu og hefur skilað góðum árangri fyrir fjöldamargar fjölskyldur sem hafa þar með getað leigt sér húsnæði á kjörum sem þær gátu ekki áður og munar mjög mikið um þá búbót. (Forseti hringir.) Ríkisstjórnin hefur vissulega gert margt (Forseti hringir.) í rétta átt í þessum málum á undanförnum árum og mun halda því áfram.