152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

stuðningur við fötluð ungmenni eftir framhaldsskóla.

116. mál
[15:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég vil draga það fram að mjög margt hefur áunnist á síðustu 20–25 árum í málefnum fatlaðra en við vitum að þegar ungmenni á starfsbraut ljúka námi þar eða í framhaldsskólanum þá tekur við tómarúm í lífi langflestra þeirra. Á sama tíma og þau eru útskrifast liggja vegir til allra átta hjá jafnöldrum þeirra. Þau hafa öll tækifæri. Það hefur verið vitað í mörg ár hversu stórir árgangarnir eru hverju sinni en það er samt alltaf eins og fólk komi af fjöllum þegar verið er að tala um ákveðinn fjölda einstaklinga innan þess hóps sem er að útskrifast hverju sinni. Við vitum auðvitað að aðgengi að menntun er af mjög skornum skammti fyrir þessi 60–90 ungmenni sem útskrifast ár hvert og þeirra bíður, eins og ég segi, lítið sem ekki neitt, þetta tómarúm. 12 þeirra fá annað hvert ár inngöngu í diplómanám Háskóla Íslands sem var komið á laggirnar í kringum 2005 eða 2006. Myndlistaskólinn í Reykjavík hefur fengið tímabundið fjármagn til að hleypa sex ungmennum inn á sérhannaða listabraut síðustu þrjú ár en það rausnarlega tilboð heyrir reyndar sögunni til frá og með næsta hausti. Fjölmennt hefur síðan þekkingu og innviði til þess að móta námstilboð á sviði fullorðinsfræðslunnar en hefur verið látin árum saman afskipt þegar kemur að þessu og ekki fengið samning við menntamálaráðuneytið.

Ef það er sýn barnamálaráðherra að ætla fötluðum ungmennum það að vera fyrst og fremst að sækja út á vinnumarkaðinn eftir að framhaldsskólanámi sleppir þá verður ráðherra líka að segja okkur hvernig hann ætlar að fá atvinnulífið í lið með sér. Þetta er samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja, samfélagsleg ábyrgð stofnana, hvort sem það er ríkis eða sveitarfélaga, ef við á annað borð viljum þetta opna samfélag sem ég vona að við viljum tala fyrir og berjast fyrir. Það er fullt af krökkum sem geta unnið í þessum hópi, geta tekið að sér einföld störf. Aðgangurinn er hins vegar mjög takmarkaður.

Þessi hópur reiðir sig síðan algerlega á baklandið sitt sem oft og tíðum er algerlega örþreytt, örmagna, búið að reyna að nýta öll úrræði, kalla eftir aðstoð. En hópurinn sjálfur, þessi kraftmikli, fjölbreytti, viðkvæmi, hæfileikaríki hópur unga fólks, þarfnast tækifæra og tækifærin koma ekki til þeirra að óbreyttu umhverfi og óbreyttu kerfi. Þetta snýst um tilvist þessara ungmenna en það sem gerist er, eins og ég segi, að þau lenda í tómarúmi, þessu áskapaða tómarúmi sem stjórnmálafólk, sem kerfið, atvinnulífið og allir hafa verið að búa til.

Þess vegna segi ég: Það er í höndum ráðherra og ríkisstjórnar að hafa forystu um að hér ríki raunverulega jöfn tækifæri fyrir alla. Eða er ætlunin hjá okkur, virðulegi forseti, að það verði hér annars vegar (Forseti hringir.) fyrsta flokks ungmenni og síðan annars flokks ungmenni, jafnaldrar hinna sem vilja og þrá það eitt að sitja við sama borð (Forseti hringir.) sem tekur tillit til hæfileika þeirra og veitir þeim tækifæri á forsendum þeirra? (Forseti hringir.)

Það er þess vegna sem ég spyr hæstv. skóla- og barnamálaráðherra: Hvernig ætlar hann að mæta fötluðum ungmennum (Forseti hringir.) eftir að námi á starfsbrautum í framhaldsskóla lýkur?

(Forseti (BÁ): Forseti verður að geta þess að þingmenn og ráðherrar þurfa að virða ræðutímann. Jafnvel þó að tíminn samkvæmt þingsköpum sé stuttur þá er ekki réttlætanlegt að fara hálfa mínútu fram yfir, eins og hv. þingmaður gerði og eins og reyndar hefur komið fyrir fyrr í dag.)