152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

biðlisti barna eftir þjónustu talmeinafræðinga.

121. mál
[16:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir) (V):

Frú forseti. Foreldrar þriggja ára drengs með mikla málþroskaröskun lýstu því í viðtali í lok síðasta árs að biðlistar eftir talmeinafræðingi væru svo langir að þriggja ára sonur þeirra gæti búist við að bíða í heil tvö ár eftir þjónustu. Þriggja ára drengurinn er með málþroska á við 18 mánaða gamalt barn. Mamma hans lýsti kvíðaeinkennum og hegðunarvanda einfaldlega vegna þess að hann getur ekki tjáð sig. Önnur móðir sagði sömu sögu í lok síðasta árs. Dóttir hennar var á biðlista allra stofa á suðvesturhorninu. Alls staðar fékk hún að heyra að tveggja ára bið væri staðan. Hjá einni stofunni var henni sagt að dóttirin væri nr. 723 í röðinni, barn nr. 723. Starfshópur þáverandi heilbrigðisráðherra átti að skila af sér tillögum um úrbætur fyrir jól. Sá hópur vann að heildstæðum tillögum um þjónustu talmeinafræðinga við börn. Í þeim hópi vekur reyndar athygli að enginn talmeinafræðingur sat þar. Ég hefði áhuga á að heyra frá hæstv. heilbrigðisráðherra hverjar þessar tillögur voru.

Í upphafi síðasta árs voru, að mér skilst, um 350 börn á biðlista hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Biðin þar er að jafnaði tveggja ára löng, um 1.000 börn bíða þjónustu talmeinafræðinga og þessi bið er sögð vera frá 17 mánuðum upp í 36 mánuði. Forseti, í mínum huga er fátt sem skilgreinir samfélag betur en einmitt hvernig það kemur fram við börn og samfélag sem lætur barn bíða árum saman eftir meðferð og þjónustu sem hefur áhrif á lífsgæði þess er ekki burðugt samfélag. Börn eiga rétt á að njóta faglegrar þjónustu sem er aðgengileg og niðurgreidd af ríkinu. Barn sem bíður árum saman nýtur ekki aðgengilegrar þjónustu. Tíminn vinnur gegn þessu barni. Ég vil fá að ræða við hæstv. heilbrigðisráðherra um hvaða leiðir hann sér út úr þessari stöðu. Hvaða lausnir hæstv. ráðherra leggur til við þeim spurningum sem ég setti fram í fyrirspurn minni. Afnám skilyrðis um tveggja ára starfsreynslu var virkilega góð ákvörðun og ég vil hrósa hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir hana. En ef fjármagn fylgir ekki inn í sjúkratryggingar með þessari ákvörðun verður hún ekki mikið meira en bara orðin. Mun ráðherra auka við fjármagn inn í þennan málaflokk?

Annað atriðið er að það vantar fagfólk. Hverjar eru hugmyndir ráðherrans til að bæta þar úr? Heilbrigðisstefna til ársins 2030 talar um að starfsmannafjöldi eigi að vera í samræmi við umfang þjónustu. Talþjálfun er þar undir og ég hef áhuga á sjónarmiðum heilbrigðisráðherra þar um. Mig langar bara til að leggja á borð það einfalda markmið að stjórnvöld verði hér hluti af lausninni en ekki vandanum og fá að hlýða á sjónarmið hæstv. ráðherra þar um.