152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

nýskráning á bensín- og dísilbílum.

131. mál
[17:36]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni bæði fyrir að vekja athygli á málinu og fyrirspurnina. Mörg ríki sem við berum okkur saman við hafa sett bann við nýskráningu bensín- og dísilbifreiða innan ákveðins árafjölda. Eftir því sem næst verður komist þá eru það aðeins Norðmenn sem hafa sett markið á bann árið 2025 en mörg ríki miða við 2030, 2035 og jafnvel 2040. Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum frá 2020 kemur fram skuldbinding um að nýskráningar fólksbíla sem knúnir eru af dísil og bensíni verði óheimilar hér á landi árið 2030. En skoðum aðeins hvernig okkur gengur að breyta bílaflota landsmanna. Samkvæmt upplýsingum á vef Samgöngustofu eru í heild um 186.405 bensínbílar og 140.855 dísilbílar skráðir á Íslandi en 15.550 tengiltvinnbílar, 11.563 rafmagnsbílar, 9.341 hybrid-bílar, 1.903 metanbílar. Sala á vistvænum bifreiðum hefur aukist mjög hratt undanfarin ár og sló öll met á nýliðnu ári en þá voru alls nýskráðir 4.496 hreinir rafbílar og 4.718 tengiltvinnbílar. Í fyrra voru nýskráðir 4.090 dísilbílar og 3.477 bensínbílar.

Spurning fyrirspyrjanda lýtur að því hvort sá sem hér stendur ætli sér að herða markmið stjórnvalda enn frekar. Stutt svarið að við verðum að gera betur ef við ætlum að herða. Mín afstaða er sú að háleit markmið séu mikilvæg en það er ekki nóg. Við verðum að ná markmiðum sem við höfum sett okkur. Það er einfaldlega þannig að það er auðvelt að skrifa markmið niður á blað en verkefnið er að ná þeim. Við Íslendingar erum að fara í orkuskipti. Þau orkuskipti kalla á mikið átak á mörgum sviðum. Það er ekki á verksviði eins ráðherra, ríkisstjórnar eða þings, það er þjóðarátak. Tækniþróunin er ör og mun hjálpa okkur að ná markmiðum okkar, t.d. þegar kemur að stærri flutningabifreiðum og almenningssamgöngum, t.d. flugi. Það er ánægjulegt að sjá þróunina í rafflugvélum sem mun styrkja innanlandsflugið. Uppbygging innviða er mikilvæg en ljóst er að fólk fjárfestir ekki í rafbíl ef innviðir eru ekki fyrir hendi. Þar hlýtur áherslan að liggja næstu misserin. Margt mjög gott hefur verið gert í þeim efnum en betur má ef duga skal. Ég mun leggja kapp á að láta verkin tala og halda þarf áfram stuðningi við uppbyggingu hleðsluinnviða. Orkuskipti hjá íbúum hinna dreifðu byggða munu ekki takast ef nægjanlegir innviðir eru ekki til staðar. Hins vegar er það ekki síður mikilvægt og jafnvel ekki síður áhrifaríkt að tryggja að ívilnanir og að skattumhverfið sé stillt af með þeim hætti að fyrir neytendur verði hreinorkubifreiðar raunhæfur og augljós kostur fram yfir bifreiðar sem brenna jarðefnaeldsneyti.

Það verður hins vegar ekki horft fram hjá efnahagslega þættinum. Hreinorkubifreiðar eru enn þann dag í dag dýr valkostur og úrval notaðra hreinorkubifreiða mætti vera meira en það mun lagast. Á móti kemur að rekstrarkostnaður rafmagnsbifreiðar er mun lægri en annarra bifreiða og gerir hann því oftast að hagkvæmari kosti þegar á heildina litið. Neytendur hafa því fjárhagslega hagsmuni af því að uppbygging hleðsluinnviða gangi sem hraðast. Það gildir ekki síst um tekjulág heimili sem reka bíl. Fram kemur í minnisblaði fjármálaráðuneytisins til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis frá 3. desember 2021 að hlutdeild vistvænna bíla af bílaflota sé hæst á höfuðborgarsvæðinu en mun lægra á landsbyggðinni. Margt bendir til að tekjuhærri hópar eigi frekar rafbíla. Við viljum væntanlega ekki búa til þannig samfélag að tekjulægri hópar eigi ekki kost á því að eiga heimilisbifreið eða útiloka möguleika þeirra til að ferðast um okkar dreifbýla land. Aðgerðirnar sem við grípum til vegna loftslagsmála mega ekki leiða af sér óréttlát umskipti fyrir efnaminni hópa.

Virðulegi forseti. Það eru þrjú ár í að árið 2025 renni upp. Þau ár verða nýtt í þjóðarátak til að leiða fram orkuskipti, enn frekari uppbyggingu innviða og innleiðingu hvata til að draga fram nauðsynlegar breytingar og að tryggja nauðsynlega orku í orkuskipti. Ef betri árangur næst en núverandi markmið stjórnvalda segja til um verð ég fyrstur manna til að fagna því og þá getum við endurskoðað fyrri áætlanir.