152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

nýskráning á bensín- og dísilbílum.

131. mál
[17:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Mér fundust svör ráðherra, með fullri virðingu, vera metnaðarlaus, alla vega óljós. Við skulum hafa í huga að bensínbílarnir sem verða fluttir inn á næstu árum verða að öðru óbreyttu enn þá á götunum árið 2040 þegar Ísland á að vera orðið algerlega óháð jarðefnaeldsneyti samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þau loðnu svör sem við fáum hér í dag eru að mínu mati einfaldlega til marks um að ríkisstjórnin treysti sér ekki til að gera það sem gera þarf til að draga úr losun. Hún vill frekar velta vandanum yfir á næstu ríkisstjórn, velta vandanum yfir á ungt fólk. Ungir umhverfissinnar gáfu Sjálfstæðisflokknum falleinkunn í loftslags- og umhverfismálum fyrir kosningar. Það er einmitt verið að velta vandanum yfir á þetta unga fólk sem bendir okkur á hann og segir: Gerið eitthvað raunhæft, stígið stór skref strax. Þetta er unga fólkið sem erfir landið og loftið okkar, en ríkisstjórnin veltir vandanum yfir á komandi kynslóðir.

Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til þess að svara skýrt: Mun hann beita sér fyrir því að ekki verði frekari nýskráningar á bensín- og dísilbílum frá árinu 2025 eða mun hann gera bara eitthvað allt annað? Og er þetta algerlega í takti — eru t.d. þingmenn Vinstri grænna sem hér eru inni bara blússandi sáttir við þessa stefnu? Ég spyr bara. Um leið og ég fagna því að ráðherra sjái ákveðna jákvæða þróun vil ég að hér sé sýndur meiri metnaður. Hér hefur verið dregið fram að Noregur sé eitt landanna sem hafa sett sér stefnu. Ja, Noregur er alla vega með metnaðarfull markmið í þessu, mjög framsækin markmið, af því að þetta er vandi sem við þurfum að takast á við núna. Það er ábyrgð okkar allra sem hér erum inni núna að taka ekki á því 2040 heldur núna. Þess vegna vil ég hvetja minn ágæta vin og ráðherra til að taka af festu á þessum málum af því að ég veit að hann getur það ef hann hefur virkilega vilja, stefnu og sýn til.