152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Að gefnu tilefni: Eitt megineinkenni íslenskrar stjórnskipunar er hin svokallaða þrígreining ríkisvaldsins í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar fara Alþingi og forseti Íslands saman með löggjafarvaldið, forseti og önnur stjórnvöld með framkvæmdarvaldið og dómendur með dómsvaldið. Hugmyndin um þrískiptingu ríkisvaldsins er iðulega rakin til skrifa franska 18. aldar stjórnspekingsins Montesquieu um leiðir til að tempra ríkisvald í þeim tilgangi að minnka líkur á ofríki og geðþóttastjórnun. Ýmsar útfærslur eru svo til á þessari hugmynd, þar á meðal sú stjórnskipun sem við búum við, sem gjarnan er kölluð þingræði, en það er sú stjórnskipunarregla að ríkisstjórn geti aðeins setið með stuðningi löggjafarþingsins.

Það er hlutverk löggjafans að setja lög. Handhafar framkvæmdarvalds sjá um framkvæmdina en vald þeirra er afmarkað af lögum. Þetta er mikilvægt.

Um ábyrgð ráðherra á stjórnarframkvæmdum öllum er mælt í lögum nr. 4 frá árinu 1963, um ráðherraábyrgð. Samkvæmt 2. gr. laga um ráðherraábyrgð má krefja ráðherra ábyrgðar samkvæmt því sem nánar er mælt fyrir um í lögunum fyrir sérhver störf eða vanrækt starfa sem hann hefur orðið sekur um ef málið er svo vaxið að hann hefur annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, önnur landslög eða að öðru leyti stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu.

Samkvæmt 9. gr. laga um ráðherraábyrgð varðar það ráðherra ábyrgð eftir lögunum ef hann veldur því að brotið sé gegn öðrum lögum landsins en stjórnskipunarlögum þess með því að framkvæma eða valda því að framkvæmt sé nokkuð það er fer í bága við fyrirmæli laganna eða með því að láta nokkuð ógert sem heimtað er í lögum, eða verða þess valdur að slík framkvæmd farist fyrir.